141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað aftur til að ræða um fjárlagafrumvarpið og ætla að halda áfram með þau atriði sem ég náði ekki að tæpa á í fyrri ræðu minni.

Ég vil í upphafi gera samskipti ríkisstjórnarinnar við atvinnulífið að sérstöku umtalsefni og hvernig sá ómögulegi farvegur sem samskipti atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar er í, og hefur verið allt þetta kjörtímabil, birtist m.a. í þessu fjárlagafrumvarpi. Það þarf ekki að hafa um það langt mál. Það eru endalaus átök, við þekkjum það, um stöðugleikasáttmálann og alla samninga sem hafa verið gerðir. Það er alveg sama hvort það eru atvinnurekendur eða launþegar, allir hafa sömu sögu að segja um þessa ríkisstjórn, um svik í samningum og loforð sem hafa ekki verið efnd.

Mér finnst ótrúlega sorglegt að við horfum upp á í fjárlagafrumvarpinu, og ég var að ræða hugmyndir um skattlagningar í fyrri ræðu minni, hreina aðför að ferðaþjónustunni með skatti sem ég vil nefna Oddnýjarskattinn. Þar er virðisaukaskattur á hótelgistingu hækkaður upp úr öllu valdi og núverandi hæstv. fjármálaráðherra er aðeins að reyna að draga í land með það, en þó með þeirri óheppilegu aðferð að um leið er verið að flækja skattkerfið og bæta við einu þrepi til viðbótar. Það er annað sem ég nefndi stuttlega í fyrri ræðu minni sem ég ætla að fara betur í, það eru svik ríkisstjórnarinnar gagnvart orkufyrirtækjunum.

Það hefur verið rætt um þau í fjölmiðlum á undanförnum dögum og varð tilefni þess að forstjóri Norðuráls, Ragnar Guðmundsson, sendi fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og atvinnuveganefnd mjög harðorða umsögn þann 20. nóvember um fjárlagafrumvarpið, um fyrirhugaða framlengingu sérstaks skatts af seldri raforku. Ég var einmitt að lesa bandorminn svokallaða, sem var loksins lagður fram, um breytingar á tekjuhliðinni og þar er staðfest að þessi áform eru að verða að veruleika. Það er þannig að tímabundinn skattur sem ríkisstjórnin setti á raforku og átti að renna út árið 2012 hefur nú verið framlengdur og það, ásamt öðrum atriðum, eru tilefni forstjóra Norðuráls til að setjast við skriftir og skrifa níu blaðsíðna umsögn með níu fylgiskjölum. Samtals eru yfir 100 síður af efni í þessari umsögn. Forstjórinn segir í niðurlagi, með leyfi forseta:

„Ljóst þykir að komi áform í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 um álagningu raforkuskatts til framkvæmda, mun það fela í sér brot á samningsskuldbindingum ríkisstjórnar Íslands samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu dags. 7. desember 2009, sem og skuldbindingum ríkisstjórnarinnar sem felast í fjárfestingarsamningum við Norðurál.“

Hann rekur í löngu máli í umsögninni hvernig samkomulag sem gert hefur verið við fyrirtækið og önnur fyrirtæki, fjárfestingarsamningar, orkusamningar og annað hefur verið þverbrotið með þessum gjörningi og því var velt upp í fjölmiðlum í gær hvort þetta muni jafnvel skapa ríkinu skaðabótaskyldu. Þetta snertir m.a. álverið í Helguvík, sem er því miður búið að vera bitbein í íslenskum stjórnmálum allt of lengi. Það er hreint út sagt sárgrætilegt að nú fjórum árum síðar — nú ætla ég að spóla til baka í síðustu kosningabaráttu og hafa þann formála á að fyrir fjórum árum þegar ég og m.a. hæstv. forseti vorum í kosningabaráttu í Suðurkjördæmi þá var einn liður í þeirri kosningabaráttu að við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins slógum skjaldborg um Helguvík og við hétum því að við mundum berjast fyrir þeirri framkvæmd fengjum við til þess umboð.

Það var engin slík skjaldborg á loforðalista ríkisstjórnarinnar, en hins vegar var í stöðugleikasáttmálanum, í yfirlýsingum í tengslum við kjarasamninga og jafnvel í stjórnarsáttmálanum sjálfum talað um að greiða götu þessa verkefnis. Við vitum öll hvernig sú sorgarsaga er. Fjórum árum síðar, þegar við erum að hefja kosningabaráttu innan skamms, þá held ég að ég og hæstv. forseti getum því miður endurtekið þá skjaldborg sem við slógum um þetta ágæta verkefni. Ég sé að hv. 1. þm. Norðvest. er mættur í salinn og ég heiti á hann að koma með okkur í skjaldborg um Helguvík vegna þess að auðvitað er þetta — ríkisstjórnin hefur sagt: Það er ekki okkur að kenna að framkvæmdir hafi tafist í Helguvík. Það vantar fjármögnun, það eru orkusamningar. Jú jú, orkusamningar hafa tafist en ég er þó orðin mjög vongóð um að þeim fari að ljúka á næstu vikum. Með ákvörðun bæjarstjórnar Voga eru línumálin komin í höfn. Það sem hefur áhrif á fjármögnun og vilja fjárfesta til að koma með fé og hætta sínu eigin fé í framkvæmdir er að sjálfsögðu sú vitneskja að farið sé eftir ákveðnum reglum. Það sé stuðningur, að menn breyti ekki reglum í miðjum leik og að menn hafi jákvætt viðhorf til fjárfestinga. Framkoma ríkisstjórnar Íslands í þessu verkefni og almennt gagnvart atvinnulífinu er ekki skilaboð sem falla fjárfestum vel í geð, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir.

Ég ætla að vitna í leiðara Morgunblaðsins í dag sem bar yfirskriftina Dýrkeypt svik. Þar er þetta mál rakið mjög vel. Það er farið vel yfir þau svik sem ég hef verið að rekja hér. Hvaða afleiðingar hafa þau? Nú segir ríkisstjórnin á tyllidögum að hún vilji efla hér fjárfestingar og laða að fjármagn og allt hljómar þetta óskaplega vel. Það segir í leiðara Morgunblaðsins , með leyfi forseta:

„Síendurtekin svik á öllum sviðum, ekki síst svo bein og augljós svik við samninga sem gerðir eru við einstök fyrirtæki, eru mikill álitshnekkir fyrir Ísland. Þau verða til þess að svokölluð pólitísk áhætta fjárfesta stóreykst, en sem kunnugt er forðast fjárfestar alla áhættu sem heitan eldinn nema þeir fái hana ríkulega bætta.“

Þá er það spurningin hvort þessi svik, eins og rakið er í Morgunblaðinu í fréttaskýringu í gær, kunni að skapa ríkinu bótaskyldu.

Í umsögn Norðuráls kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Skattlagningin sjálf er því í ósamræmi við ákvæði fjárfestingarsamninga ríkisstjórnar Íslands við Norðurál eins og rakið hefur verið (auk e.t.v. fleiri fjárfestingarsamninga við fjárfesta sem ríkisstjórnin mun hafa gert). Þannig hefði hún ekki getað átt sér stað með löglegum hætti, og án þess að skapa ríkinu skaðabótaskyldu, fyrir árin 2010–2012 nema með samkomulagi við m.a. Norðurál.“

Það segir í fréttaskýringunni: „Fram kemur að álögð gjöld álfyrirtækisins hafa hækkað verulega á seinustu árum. „Hér má nefna sem dæmi verulega hækkun tryggingagjalds á árunum 2008–2011 sem nam alls 3,31 prósentustigi. […] Þessi hækkun ein og sér hefur þegar leitt til kostnaðarauka fyrir Norðurál sem nam til dæmis um 152 millj. kr. á árinu 2011.““

Þetta er algerlega stórmál. Ofan á þetta bætist við önnur ákvörðun fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra Oddnýjar G. Harðardóttur, kannski annar Oddnýjarskattur.

Við höfum heyrt af fyrirhuguðum breytingum á verðskrá Landsnets, þau áhrif sem þær munu hafa eru gríðarleg. Þetta hefur verið rakið í fréttum og í fjölmiðlum. Ég heyrði skýringar forstjóra Landsnets í gær, að það væri verið að færa vísitölu, verðbæta verðskrárnar og annað og þetta er óskaplega flókið mál, en stutta skýringin er sú að í tíð Oddnýjar Harðardóttur gaf hún út reglugerð sem hefur þær afleiðingar að Landsnet finnur sig knúið til að hækka gjaldskrá sína. Ef við höldum okkur við Helguvík þá mun þessi hækkun hafa í för með sér milljarðs kr. skattahækkun á álverið þar, það verkefni eitt og sér. Þetta var ráðherranum fullkunnugt um en samt gaf hún út þessa reglugerð.

Ég vék áðan að samskiptum þessarar ríkisstjórnar við atvinnulífið sem eru hreint út sagt til skammar. Í fyrri ræðu minni fór ég aðeins yfir sjávarútvegsmálin. Við getum gripið niður í umsagnir samtaka á vinnumarkaði, t.d. Samtaka iðnaðarins, sem fjölluðu um fjárlagafrumvarpið þegar það kom fram á stjórnarfundi. Yfirskriftin var: „Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 veldur vonbrigðum.“ Þau gagnrýna það sem er í anda þess sem ég nefndi um samráðið og svikin sífellu og ég vil rekja að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa verið í ágætu samstarfi um vinnumarkaðsmál, baráttuna við atvinnuleysi. Eitt af þeim atriðum sem var í yfirlýsingu ríkisstjórnar frá því í maí 2011 í tengslum við kjarasamninga var að þá átti að lækka atvinnuleysistryggingagjaldið um 0,3%. Eins og kemur fram í yfirlýsingu Samtaka iðnaðarins verður ekki annað séð en að ríkisstjórnin sé að ganga á bak orða sinna með það.

Það sem ég rakti hér áðan í fyrri ræðu minni varðandi alla skattana sem verið er að koma á með endalausum skýringum — og maður verður kannski að hrósa hæstv. ríkisstjórn fyrir frumlegheit í skýringum á skattahækkunum. Í fyrsta lagi heita skattahækkanir ekki lengur skattahækkanir hjá henni, þær eru breytingar á tekjuhlið, mjög frumlegt. Til að krækja í einhverja milljarða auka í tekjur, þá leggur hún núna aukavörugjald á sykraðar og óhollar vörur og segir að það sé í nafni lýðheilsu. Eins og ég benti á áður þá hef ég ekki heyrt um neinn sem fer í megrun með því að hækka skatta. Ég held að sú neyslustýring sé algerlega óásættanleg. Vörugjöldin á matvæli eiga að taka mið af magni að viðbættum sykri eða sætuefnum í vöru. Samtals er gert ráð fyrir að þessi endurskoðun á lögum um almennt vörugjald skili ríkissjóði 0,8 milljörðum kr. Nú á einhver embættismaður að fara að reikna út sykurmagn í vörum og leggja vörugjald á það. Þetta er náttúrlega atvinnuskapandi, hv. þm. Pétur H. Blöndal, við getum kannski hrósað þeim fyrir það. Nei, ég held að þetta hljóti að vera eitt það vitlausasta sem maður hefur heyrt í þessum málum.

Ég gef syni mínum skyr. Mér er sagt að skyr sé hollt. Jú, ég hef kvartað við aðila innan Mjólkursamsölunnar yfir því að mjólkurvörur eru upp til hópa of sætar, en þetta hlýtur að verða til þess að verð á skyri hækkar upp úr öllu valdi. Þar með hækkar matarreikningur fjölskyldnanna í landinu og, ég leyfi mér að fullyrða, barnafjölskyldnanna í landinu vegna þess að skyr er vinsælt meðal barna. Á endanum verður þetta til þess að lánin okkar hækka líka og fer út í verðlag og verðbólgu með öllum þeim afleiðingum.

Ég er komin í bandorminn, þó við séum að vísu að ræða fjárlögin, en það er einfaldlega þannig að auðvitað verður þetta að ræðast saman. Þetta er tekjugrunnurinn. Ég er búin að gagnrýna fjárfestingaráætlunina sem er meira að segja með fyrirvara frá ríkisstjórninni sjálfri. Hún trúir ekki einu sinni að þetta muni standast þannig að fyrirvarinn hjá henni er að þetta verði allt saman endurskoðað. Hér eru 500–600 millj. kr. sem vantar til að ballansera reikninginn og þá kemur mjög skemmtilegur liður sem ég man eftir úr mínu fyrra lífi sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Hann var gjarnan fjármögnunarleið Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi þingmanns, þegar hún kom með útgjaldatillögur og það er liðurinn Bætt skattskil. Hann á nefnilega að gefa 500–600 millj. kr. í viðbótartekjur á næsta ári og það er, með leyfi forseta:

„Í áttunda lagi hafa stjórnvöld uppi áform um að bæta skattskil, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja, sem kostur er með hertum aðgerðum skattyfirvalda og innheimtumanna ríkissjóðs á komandi mánuðum og árum. Telja má að þessar aðgerðir skili ríkissjóði 500–600 millj. kr. í viðbótartekjum á næsta ári.“

Þetta er froðufé og ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal er mér sammála um það. (Gripið fram í.) Það er rúmur hálfur milljarður sem á að koma inn með því að veifa hendi og segja: Bætt skattskil. Á sama tíma er þetta sama fólk að hækka alla skatta upp úr öllu valdi sem verður til þess að bæta í áhuga fólks, og sjálfsbjargarviðleitni í sumum tilfellum, þó ég sé alls ekki að mæla því bót, á að svíkja undan skatti. Það er alvarlegur meinbugur á samfélagi okkar sem við verðum að uppræta, en við gerum það ekki með þeim hætti sem þetta fólk er að leggja til og mér finnst ansi bratt að áætla 500–600 millj. kr. í tekjur á næsta ári fyrir eitthvað sem fyrirhugað er í þessu samhengi.

Svo er mjög fróðlegt að lesa þetta plagg. Það á að hækka, eins og hér hefur komið fram, áfengi, tóbak, sykur, raforku, kolefnisgjaldið og tryggingagjaldið. Svo sé ég hérna í bandorminum að það á meira að segja að hækka gjald á útgáfu vegabréfa. Það er kannski liðurinn í því að draga úr brottflutningi ungs fólks, skattleggja vegabréfin og hækka kostnað við vegabréfin (Forseti hringir.) þannig að fólk hafi ekki efni á þeim heldur. Ja, þetta er nú frekar dapurt, frú forseti.