141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég get því miður ekki frætt hv. þingmann um það hvernig þessi arður í Seðlabankanum á að koma til og ég spyr: Eru seðlabankar almennt látnir skila arði? Eru þeir almennt reknir með það fyrir augum að þeir skili arði? Ég hélt ekki. Ég hélt að seðlabankar hefðu allt annað hlutverk. Þetta er álíka gáfulegt og ef við ætluðum að taka arð út úr Íbúðalánasjóði, sem er kannski ekki besta dæmið sem ég gæti nefnt.

En það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að til að ÁTVR geti skilað arði og auknum tekjum í ríkissjóð þarf fyrirtækið að fá þær tekjur einhvers staðar annars staðar frá. Þá þarf að hækka brennivínið og tóbakið sem kemur svo inn í vísitöluna. Þess vegna spurði ég hæstv. fjármálaráðherra áðan, ég krafðist þess að hún yrði við umræðuna og hún var það, um verðlagsáhrif. Ég lagði þá spurningu fyrir hana meðal annars vegna þess að ég get ekki séð í kostnaðarmatinu með bandorminum, sem ég var að renna yfir, að þar sé gerð nein tilraun til að meta verðlagsáhrifin af öllum þessum hækkunum. Þetta er enginn smáfjöldi af hlutum sem verið er að hækka gjöldin á, allt frá vegabréfum, eldsneyti, sykruðum og óhollum mat að mati einhverra, tóbaki, áfengi o.s.frv. Allt kemur þetta við okkar buddu. Talað er um að verið sé að færa þetta upp til verðlags. Gott og vel. Þá spyr ég um aðrar verðlagsforsendur í frumvarpinu. Ég veit til dæmis að kjarasamningar við Brunavarnir Suðurnesja sem eiga að taka gildi voru ekki verðlagsbættir. (Forseti hringir.) Hækkun þeirra samninga var 1% í staðinn fyrir 4,5% eins og átti að vera samkvæmt verðlagsuppfærslu, þannig að ríkið gefur og ríkið tekur.