141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég fer efnislega í það sem ég ætla að ræða sérstaklega í ræðu minni, um óréttlæti og einelti að mínu mati í uppbyggingu þjóðgarða á Íslandi sem endurspeglast í fjárlagafrumvarpinu, ætla ég að fara aðeins yfir stóru myndina í nokkrum orðum. Það er umhugsunarvert að enn skuli ekki vera búið að mæla fyrir tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins. Það kom fram í fjárlaganefnd í morgun að stefnt væri að því að 3. umr. yrði næstkomandi miðvikudag. Ég veit ekki hvort ég á að taka því sem gríni eða alvöru. Ég taldi einsýnt að ekki kæmi aftur upp sú staða sem var hér sl. haust að þegar tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins fékk ekki umsögn í efnahags- og skattanefnd, vegna þess að einhver kýtingur var á milli einstakra hv. þingmanna um hvernig ætti að vinna þá hluti. Eftir þær umræður sem þá áttu sér stað hélt ég að þetta gæti ekki komið upp aftur. En þetta segir allt um vinnubrögðin í kringum þetta mál. Það er gersamlega óþolandi og ólíðandi að ekki skuli vera búið að mæla fyrir tekjuhluta frumvarpsins. Það þarf í raun ekki að segja meira um það. Þetta eru gersamlega galin vinnubrögð.

Það er ágætt að rifja upp, vegna orðaskipti hv. þingmanna sem hér töluðu, mikilvægi þess að menn fari ekki að taka út úr öllum þeim matarholum sem til eru, öllum þeim fyrirtækjum sem ríkið á, heldur fari að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það blasir við. Það er gríðarlega mikið áhyggjuefni að skuldsetning ríkissjóðs með skuldbindingum hans sé um 1.900 milljarðar kr., meira að segja rúmir, og vaxtagjöld á næsta ári eru 84 milljarðar þrátt fyrir að við séum að fjármagna ríkissjóð í skjóli gjaldeyrishafta og að vextir á erlendum mörkuðum séu mjög lágir. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér og maður verður eiginlega algerlega mát, sérstaklega þegar horft er til skuldastýringar ríkissjóðs. Til að útskýra það aðeins var það þannig að síðastliðið haust fyrir tæpu ári þegar fjárlögin fyrir árið 2012 voru afgreidd lá ekki fyrir hvort dregið yrði á svokallaðar lánalínur hjá Norðurlandaþjóðunum. Þess vegna voru vaxtagjöldin af þeim lánum ekki inni í frumvarpinu 2012. Síðan er tekin ákvörðun á gamlársdag um að draga á þessi lán, tekin ákvörðun um það á síðustu dögum ársins. Í framhaldi af því er í mars á þessu ári byrjað að greiða niður 40 milljarða af Norðurlandalánunum. Síðan fer ríkissjóður í skuldabréfaútboð á bandarískum markaði upp á 1 milljarð bandaríkjadala, sem voru á þeim tíma 124 milljarðar kr., til að sýna fram á að hægt sé að fara í fjármögnun á ríkissjóði á erlendum mörkuðum. En það skuldabréf ber 6% vexti, mun hærri vexti en Norðurlandalánin. Í kjölfar þess voru greiddir niður 80 milljarðar af Norðurlandalánunum sem voru með hagstæðari vaxtakjör og ekki bara það heldur voru þau með gjalddögum 2016, 2017 og 2018. Maður er því mjög hugsi yfir því hvernig að þessum málum er staðið. Það kemur skýrt fram í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta með fjáraukalögunum að það hafi verið afskaplega dýr tilraun hjá ríkissjóði að fara þessa leið.

Síðan er mikið áhyggjuefni hversu mikið vaxtajöfnuðurinn er að aukast. Hann er að aukast töluvert mikið. Hann fer á næsta ári úr 56 milljörðum í rúma 63 milljarða. Það sjá auðvitað allir og ég held að það séu allir sammála um mikilvægi þess að fara að greiða niður vexti, en vaxtagjöld eru orðin þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Á næsta ári eru það 84 milljarðar sem þarf að greiða í vexti og gert er ráð fyrir því að á næstu fjórum árum muni þurfa að greiða upp undir 400 milljarða bara í vexti. Samt er afskaplega lítil umræða um það að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er með ólíkindum.

Síðan er umhugsunarefni sá duldi halli sem er í fjárlögunum. Skýrasta dæmið sem blasir auðvitað við um það sem er að gerast er að skuldbindingar ríkissjóðs í B-deildinni eru núna upp undir 400 milljarðar kr. Hvað var gert þegar við lokuðum B-deildinni á sínum tíma? Þá var stofnuð A-deild, einmitt til þess að koma í veg fyrir að svona hlutir mundu gerast, þ.e. staðið yrði við skuldbindingar jöfnum höndum. En nú þegar er A-deildin með neikvæða stöðu um 50 milljarða. Það segir okkur að bráðnauðsynlegt er að hækka iðgjöldin í A-deildinni til að koma í veg fyrir meiri halla og auðvitað var það tilgangurinn þegar hún var sett á laggirnar. Þegar við rekum ríkissjóð án þess að standa full skil á lífeyrisskuldbindingum erum við með duldan halla inni í rekstrinum og setjum þar með mjög þungar byrðar á komandi kynslóðir. Það er umhugsunarefni. Mér finnst persónulega allt of fáir hv. þingmenn stjórnarliðsins tala um að greiða niður skuldir, frekar vilja menn fegra hlutina með því að fara í einhverjar fjárfestingaráætlanir sem eru hálfgerð vitleysa að langstærstum hluta en ég mun taka sérstaka ræðu um það seinna.

Þá ætla ég að koma að því sem ég kalla óréttlæti og í raun og veru einelti, og sést best í fjárfestingaráætlun hæstv. ríkisstjórnar og í fjárlögunum. Þá er ég að tala um hvernig staðið er að uppbyggingu á þeim þremur þjóðgörðum sem eru hér á landi; þjóðgarðinum á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarði og síðan Þjóðgarðinum Snæfellsjökli sem var stofnaður 2001. Hann hefur aldrei fengið stofnframlag, aldrei. Hver eru skilaboðin núna? Settir eru fjármunir í að byggja upp viðkvæma ferðamannastaði og þeir eru meðal annars innan þessara þjóðgarða að sjálfsögðu og á fleiri svæðum. Ég er ekki að setja út á það en ég set út á hvernig þessu er skipt. Það er til skammar hvernig að þessu er staðið. Ég hefði helst viljað að hæstv. umhverfisráðherra væri hér til að eiga við mig orðastað. Við getum rifjað upp það sem gerðist fyrir örfáum dögum þegar í fjáraukalögum voru settar 90 milljónir til viðbótar til Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég lét þau orð falla þá og ég stend við þau að með því er í raun og veru verið að senda þau skilaboð að það eigi að verðlauna skussana. Af hverju segi ég þetta? Jú, sá ágæti þjóðgarður er með 180 millj. kr. negatífa stöðu við ríkissjóð vegna þess að farið var fram úr framkvæmdum. Þess vegna segi ég þetta. Ég er ekki á móti uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs, alls ekki, en þetta er algerlega óþolandi.

Síðan kemur þessi merka fjárfestingaráætlun. Það er í sjálfu sér dálítið merkilegt hvernig skiptingin er á svokölluðum gistináttaskatti, þ.e. af 750 milljónum fara 500 milljónir í nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en 250 milljónir fara í gegnum umhverfisráðuneytið. Hvernig er því síðan skipt? Við skulum fara aðeins yfir það, virðulegi forseti.

Settar eru beinar fjárveitingar inn í tvo þjóðgarða — tvo, ekki þrjá. Annars vegar eru settar 59,5 millj. inn í þjóðgarðinn á Þingvöllum og hins vegar eru fjárveitingar til Vatnajökulsþjóðgarðs. Hvernig skyldu þær vera? Í fyrsta lagi eru settar 30 millj. kr. í eflingu á rekstri, 57 millj. kr. í byggingu innviða og síðan fær garðurinn 290 millj. kr. til viðbótar. Á sama tíma er ekki sett króna inn í Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, ekki ein, í þessum tillögum. Og ekki bara það. Þessi 290 millj. kr. fjárveiting sem er hugsuð til að byggja nýja gestastofu við þekkingarsetur er í raun 1/3 af því sem þarf til að fara í þá uppbyggingu því heildarkostnaður við framkvæmdina er tæpar 900 millj. kr.

Til viðbótar þessu, þegar maður les þau gögn sem fylgja með þeim 500 millj. sem eiga að fara inn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, er meira að segja settur inn pósitífur texti um þau verkefni sem koma til greina að fá úthlutun. Og það er þess vegna sem ég kalla þetta einelti og óréttlæti, því verkefnin eru talin upp og þar segir, með leyfi forseta:

„Þar getur verið um að ræða ferðamannastaði í þjóðgörðum eins og á Þingvöllum eða í Vatnajökulsþjóðgarði …“

Tveir þjóðgarðar taldir upp en ekki sá þriðji. Þess vegna segi ég að fjárfestingaráætlunin og fjárlögin eru í raun algerlega ólíðandi og óþolandi hvað varðar óréttlæti og einelti. Það er auðvitað umhugsunarvert að farið skuli í uppbyggingu á tveimur þjóðgörðum en aldrei á þeim þriðja. Þannig hefur það verið á undanförnum árum, síðustu þremur fjárlagaárum, og hefur í raun gengið fram af hv. fjárlaganefnd, held ég að ég geti sagt, nánast öllum hv. þingmönnum sem sitja í henni. Hv. fjárlaganefnd hefur á þessum þingum lagt til beinar fjárveitingar til Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, lágar upphæðir en hún hefur þó sýnt þann virðingarvott að setja eitthvað þar inn. Það er umhugsunarefni hvernig á þessu stendur.

Ef maður ber saman rekstrarkostnað þessara þriggja þjóðgarða er Snæfellsjökulsþjóðgarður sennilega með um 10% af rekstrarframlagi. Það er því ekki hægt að kalla þetta annað en einelti, virðulegi forseti. Í ljósi þess er ágætt að rifja upp að þegar þorskafli var skorinn niður árið 2007 var þjóðgarðurinn einmitt eitt af þeim verkefnum sem átti að mæta niðurskurðinum á þeim svæðum þar sem hann kom harðast niður á, en langstærsti hluti af þeim sjávarafla sem unninn er á Snæfellsnesi tengist þorskveiðum og vinnslu, þetta er sérstakt þorskveiðisvæði. En nei, ekki skal staðið við það þannig að þessi framkoma er hreint með ólíkindum.

Síðan er haldið áfram og maður veltir fyrir sér hvort engin takmörk séu fyrir því sem verið er að gera. Mig langar að fjalla örstutt um svokallaðar 6. gr. heimildir. Eigum við að fara yfir 6. gr. heimildirnar í frumvarpinu og þann lið sem snýr til að mynda að þjóðgarðinum á Þingvöllum? Hvernig skyldi hann nú vera? Í 6. gr. heimild kemur pósitíft ákvæði í lið 6.11 þar sem segir: „Að kaupa sumarbústaði í þjóðgarðinum á Þingvöllum og jarðir í næsta nágrenni hans.“ Kaupa heilu jarðirnar í næsta nágrenni hans. Hver skyldi hugsunin vera? Jú, auðvitað að reyna að komast yfir eignir ef það er skynsamlegt að gera það, ég ætla svo sem ekki að fjalla sérstaklega um það í þessari ræðu, en þarna er pósitíft ákvæði sem sýnir stefnu stjórnvalda um hvað skuli gera.

En svo eru gerðar breytingar og fluttar nýjar 6. gr. heimildir núna af hálfu meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar. Hverjar skyldu þær vera? Það er lagt til að selja eignirnar sem ríkið á í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi og það eru einungis eignirnar á Gufuskálum. Það eru engar aðrar eignir þar sem ríkið á sjálft. Það er lagt til að þær verði seldar. Það er auðvitað mjög mikið umhugsunarefni hvernig að þessu er staðið.

Ég hef ekki fengið neinar skýringar þótt ég hafi kallað eftir þeim. Ég veit ekki hvort þetta eru bara skýr skilaboð. Það er í raun og veru farið að tala um það í fullri alvöru, og reyndar hefur verið beðið um það af hálfu bæjaryfirvalda í Snæfellsbæ, að þessari skipan verði breytt og sett ein stjórn yfir alla þjóðgarðana. Förum aðeins yfir það hvernig þessar stjórnir eru skipaðar. Ef við tökum þjóðgarðinn á Þingvöllum hafa yfirleitt ráðherrar og þingmenn haldið utan um þetta og hafa gert í gegnum tíðina. Vatnajökulsþjóðgarður, við getum orðað það svo að þar sitji margir helstu trúnaðarmenn stjórnsýslunnar. En Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull? Nei, það er bara eins og hann sé ekki til. Bæjaryfirvöld á Snæfellsnesi hafa beðið formlega um að sett verði ein stjórn yfir þjóðgarðana. Svo það komi alveg skýrt fram þá er ég ekki á móti uppbyggingu í þjóðgörðunum. Það eina sem ég er að kalla eftir er réttlæti, engu öðru. En það er alveg sama hversu oft er kallað eða þetta mál rætt hér, réttlætið sést aldrei. Þau sjást fingraförin hjá hæstv. ríkisstjórn.

Þessi norræna vonlausa velferðarstjórn sem kallar sig svo státar sig af því að vera umhverfisvæn og allt sem því fylgir. Þá er ágætt að taka það upp að sveitarfélögin á Snæfellsnesi undir forustu sjálfstæðismanna í öllum þeim sveitarfélögum voru brautryðjendur í sjálfbærni. Við munum eftir staðardagskránni sem kennd var við svokallaða Ólafsvíkuryfirlýsingu, hún var samþykkt þar. En auðvitað hvíldi sú vinna að mestu á herðum tveggja frumkvöðla þar og áttu mestan heiðurinn af henni, þau Guðrún Bergmann og Guðlaugur heitinn Bergmann. En sveitarfélögin voru á bak við þau og þarna var farið í fyrirmyndarátak, allir sem að því komu. En hver eru þá skilaboðin til þessa svæðis? Jú, þarna á ekkert að byggja upp. Og ekki bara það heldur er líka búið að taka út svokallað Earth Check verkefni sem hefur verið öðrum sveitarfélögum fyrirmynd. Til að mynda hafa sveitarfélög á Vestfjörðum unnið að því að taka upp sömu stefnu sjálfbærni og á Snæfellsnesinu. En það er skorið í burtu. Hins vegar er nóg af fjármunum til að setja í alls konar vitleysu, þannig að það er annað gert en sagt er. Og það mun auðvitað elta uppi stjórnarflokkana og stjórnarmeirihlutann þó að þeir tali hér hver upp í annan um eigið ágæti og eigin verk. Íbúarnir og fólkið úti í kjördæmunum skynjar þetta á allt annan hátt, það gefur augaleið. Þetta mun elta þá uppi, það segir sig sjálft.

Virðulegi forseti. Þetta er algerlega óþolandi. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en einelti, sem er ljótt orð en það er ekki hægt að túlka það með öðrum hætti þegar það er alltaf sá sami sem skilinn er út undan.