141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek auðvitað undir það með hv. þingmanni að athyglisvert verður að sjá hvort hv. þingmenn stjórnarliðsins í Norðvesturkjördæmi styðji þá mismunun. Ég hef svo sem verið að sæta færi að reyna að fá þau hugsanlega í andsvör við mig en hv. þingmaður sér að maður er að tala fyrir tómum sal. Það mun auðvitað reyna á og það verður kallað eftir afstöðu þeirra þegar að því kemur af því að, eins og ég fór skýrt yfir í ræðu minni, við vorum ekki að gera einhverjar kröfur umfram aðrar. Við erum að kalla eftir réttlæti, engu öðru. Það snýst nú um það.

Ég átta mig bara ekki á því af hverju það er unnið svona. Ég er margbúinn að kalla eftir skýringu. Ég átti hér hörð orðaskipti við hæstv. umhverfisráðherra þegar var mælt fyrir fjárlagafrumvarpinu og gerði alvarlegar athugasemdir við þessa hluti. Maður var auðvitað með von í brjósti af því að það lá fyrir að farið yrði í verkefni eins og þá voru boðuð án þess að búið væri að útfæra þau. Það var sagt: Þegar það liggur fyrir hversu mikið fjármagn verður sett í þetta verður farið í að útfæra það nánar.

Ég hélt í raun og veru þegar ég fór yfir tillögurnar að það hefði gleymst blað. Ég fór meira að segja að tékka á blaðsíðunúmerunum, hvort það gæti verið eftir þær alvarlegu athugasemdir sem gerðar voru að það skuli vera svona. Það er auðvitað umhugsunarvert að ekki skuli hafa verið gerðar athugasemdir við þetta í stjórnarflokkunum þegar málið er lagt fram. Það verða hv. þingmenn auðvitað að svara fyrir.

Eins og ég sagði áðan, þegar menn segja eitt og gera annað verða hv. stjórnarliðar auðvitað rukkaðir þegar þeir koma út í kjördæmið um það hvernig á því standi og hvernig þeir geti varið það. Þannig að ég tek undir með hv. þingmanni, það verður spennandi að sjá hvort þeir styðji það.