141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni, eins og kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta, skuldsetning ríkissjóðs er gríðarleg og háar vaxtagreiðslur úr ríkissjóði nema á næsta ári um 84 milljörðum. Það er auðvitað umhugsunarvert. Ég sagði í ræðu minni í gær að ég áttaði mig ekki á því, en hefði samt áhyggjur af því, hvernig hv. stjórnarliðar margir hverjir, ekki margir, þeir hafa ekki það margir talað, tala einmitt eins og hv. þingmaður benti á, hér væri viðspyrnan hafin og niðurskurðartímabilinu lokið. Það var nú bara þannig. Það væru ákveðnar væntingar.

Hvað varðar fjárfestingaráætlunina er það náttúrlega bara einskært lýðskrum þegar menn setja fram einhverja áætlun og ætla svo að vera við skóflustungurnar í vor og láta mynda sig fyrir kosningarnar. Svo eiga aðrir að sjá um að framkvæma hana, það er annað þing sem tekur við og á að framkvæma áætlunina en hinir stæra sig af henni. Það er eins og keisarinn sem er án fata. Það gefur augaleið að það er svoleiðis, bara píp og vitleysa.

Það er líka svo mikilvægt að gera sér grein fyrir því að við verðum að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er lífsspursmál af því við erum núna í skjóli, ef við notum það orð, gjaldeyrishafta, alla vega þegar við erum að tala um að fjármagna ríkissjóð. Hvað vaxtastigið varðar hefur smábreyting á vöxtum í för með sér milljarða, og jafnvel tugi milljarða, halla á ríkissjóði. Hvað ætla menn að gera þá? Svo segja menn: Niðurskurðartímanum er lokið. Það er þannig, eins og hv. þingmaður þekkir, að í Snæfellsbæ er búið að loka heilsugæslustöðinni aðra hverja helgi. Hvernig er starfsemin á heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ? Það er einn læknir á bakvakt. Það er ekki eins og það séu fleiri manns í vinnu, nei, það er einn læknir á bakvakt. Viðspyrnan er það mikil hjá hv. stjórnarliðum. Það gefur auðvitað augaleið að það er bara píp og lýðskrum þar sem menn eru að fara í einhvern kosningaham.