141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þurfum svo sannarlega að forgangsraða í þeim rekstri eins og öllum öðrum rekstri. Ég hugsa að á flestum heimilum í landinu hafi fólk þurft að setjast niður og forgangsraða hvernig það ætlar að eyða þeim fjármunum sem það hefur. Þegar það sem menn hafa milli handanna minnkar vegna hárra skulda, forsendubrests, hækkunar, verðbólgu og margföldunar á lánum, þarf að forgangsraða.

Ég er sammála því, og hef talað um það hér áður, að við þurfum að fara yfir stöðu lögreglunnar, — ég hef nú reyndar farið fram á utandagskrárumræðu eða sérstaka umræðu um akkúrat það mál — í hvaða stöðu lögreglan á Íslandi er komin. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt að við séum komin það langt inn að beini hjá lögreglunni að lögreglumenn telji sig jafnvel varla geta sinnt þeim skyldum sem á þá eru lagðar með lögum. Ég verð nú að viðurkenna að maður er mikið á ferðinni og það er mjög sérstakt að sjá varla lögreglubíl þegar maður er að keyra til dæmis úti á landi eða heyra af lögregluþjónum í alls konar erfiðum aðstæðum.

Frú forseti. Ég er líka þeirrar skoðunar, þannig að það liggi fyrir, að auka þurfi tæki og tól lögreglunnar til að sinna sínum verkefnum varðandi rannsóknarheimildir og annað, öfugt við það sem mér sýnist að hæstv. innanríkisráðherra ætli sér að leggja hér fram.

Ráðleggingar til sóknar: Ég held að fyrsta vers hljóti að vera að reyna að auka trúverðugleika. Að segja við fjárfesta og þá sem vilja fjölga störfum, stækka sín fyrirtæki eða koma með nýjar hugmyndir, að hér sé stöðugleiki, svona verði umhverfið næstu árin. Við erum ekki að fara að rugga þeim bát meira en hefur verið gert. Við þurfum að hafa þannig umhverfi að menn geti horft fram á við og fram í tímann og séu ekki í eilífri óvissu.