141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grunnþjónustan er að sjálfsögðu eitt af því sem flestir líta til þegar þeir ákveða að setja sig niður einhvers staðar, hvort sem það er nú í Snæfellsbæ eða Grundarfirði. Fólk lítur til þess hvernig heilbrigðisþjónustan er, skólakerfið og atvinnustigið. Það eru svona hlutir sem fólk veltir eðlilega fyrir sér. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, mér finnst forgangsröðunin svolítið sérkennileg. Af því ég veit að hv. þingmaður var að minnsta kosti í eina tíð mjög áhugasamur um laun listamanna, velti ég því fyrir mér hvort það sé rétt forgangsröðun að hækka þau um 38,5 millj. fyrir næsta ár, úr 43,4 í 81,9 eða nærri því um helming. Við getum haft alls konar skoðanir á listamannalaunum og allt það en þetta er dæmi um forgangsröðun. Ég velti fyrir mér hvað væri hægt að gera á Heilbrigðisstofnun Snæfellsbæjar fyrir 38,5 milljónir. Væri hægt að hafa opið allar helgar? Það eru svona hlutir sem eðlilegt er að setja í samhengi.

Það má líka spyrja sig hvernig það liti út í Reykjavík ef heilsugæslan væri lokuð aðra hverja helgi? Menn geta verið fúlir yfir svona samanburði, ég skil það svo sem vel, en þegar við horfum á það sem mestu skiptir er það nákvæmlega það sem hv. þingmaður nefndi, grunnþjónustan er það sem flestir horfa á þegar þeir velja sér samfélag til að búa í. Á endanum mun það leiða til þess, þegar þjónustan er skorin niður hvort sem það er nú af ríkinu eða sveitarfélögum eða hvernig það er, að íbúum mun að sjálfsögðu fækka og þeir flytja sig á endanum á stað sem uppfyllir þær kröfur og þjónustu sem þeir óska eftir.

Það er ágætt að koma því að að lokum að það er enn á lofti einhver misskilningur um að úti um allt land séu rekin mikil og stór sjúkrahús sem geta sinnt flóknum aðgerðum. Það er vitanlega ekki þannig. Það er fyrst og fremst grunnþjónusta (Forseti hringir.) og heilsugæsla sem menn fara fram á.