141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svar hennar. Það er ýmislegt fleira sem má finna í þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram. Það er einn málaflokkur sem ég hef frá hruni haft töluverðar áhyggjur af og held að hafi kannski ekki verið gefinn nægur gaumur og það eru íþrótta- og æskulýðsmál. Sá málaflokkur er mjög mikilvægur þegar kemur að forvörnum og því að tryggja heilsu og hreyfingu ungmenna, lærdóm þeirra og líf að mörgu leyti. Mér sýnist að verið sé að gera tilraun til að bæta aðeins úr í þessum efnum í frumvarpinu en auðvitað eru þessar útgjaldatillögur sama marki brenndar og aðrar; það er allt of lítið á bak við þær sem er trúverðugt, allt of lítið sem tryggir að hægt sé að standa við þær.

Við skulum segja að það sé ljós í myrkrinu að þarna eigi að horfa eitthvað fram á við, en ég held að það sé mikilvægt að Alþingi eigi gott samráð og samstarf við þá sem starfa í íþrótta- og æskulýðsmálum og reyni að marka stefnu til langs tíma, til langframa, um það hvernig þessir aðilar geta sameinast um að bæta hag og heilsu æsku landsins, svo ég orði það nú þannig. Við höfum séð það í gegnum tíðina hversu miklu skiptir að þeir sem vinna að æskulýðs- og íþróttastarfi fái gott umhverfi til þess.

Ég ætla að leyfa mér að nefna að líklega eru unglingalandsmótin sem Ungmennafélag Íslands stendur fyrir eitt það skemmtilegasta sem tekist hefur í seinni tíð, það er hreint stórkostlegt að mæta þar og sjá börn taka þátt og börn og fullorðna skemmta sér. Ég held að við hljótum að þurfa að búa til einhverja framtíðarsýn fyrir þennan hóp og mér finnst hana vanta hjá þessari ríkisstjórn, mér finnst að ríkisstjórnin hafi látið þetta liggja á hakanum. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort upplifun hennar sé sú sama eða svipuð, ekki síst út af þessu fjárlagafrumvarpi.