141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vissi að það mundi ganga gegn skoðunum ýmissa hér inni að leyfa sér að hugsa þá hugsun að selja Landsvirkjun, en ég minni á það sem ég sagði: Hún verður seld aftur og aftur á 40 ára fresti þannig að þjóðin missir ekki neitt. Allt batteríið yrði leigt til 40 ára og þá er fyrirtækið bara búið. Þá tekur næsta fyrirtæki við og verður selt aftur og aftur. Ég er því að tala um að einkavæða Landsvirkjun í bitum, í 40 ára tímabitum. Ef menn leyfa sér að hugsa þá hugsun til enda sjá þeir að þjóðin missir þá ekki auðlindina, hún missir ekki Landsvirkjun.

Af hverju í ósköpunum skyldi ríkið standa í orkuframleiðslu? Er hún eitthvað svipað og heilbrigðisþjónusta eða hvað? Hvaða rök eru fyrir því að taka áhættuna á að standa í orkuframleiðslu, eins og ég nefndi, ef ný aðferð fyndist til að greina ál úr jarðskorpunni, annað en rafgreining? Þá er allt þetta dæmi bara fallið og þá fengjum við að sjá stórar tölur í ríkisábyrgðum, risatölur hjá Landsvirkjun. Af hverju skyldi ríkið vera að taka þessa áhættu?

Bara nákvæmlega eins og með Íbúðalánasjóð. Af hverju er ríkið að standa í útlánastarfsemi og taka áhættu af því og borga núna tugmilljarða eftir tug? Þá bara blikna allar hinar tölurnar, hjartatæki og alls konar tæki í heilbrigðisþjónustunni, lögreglan og ég veit ekki hvað og hvað, vegna þess að menn eru að borga þessar risatölur vegna ríkisábyrgðar. Ég held að menn ættu að leyfa sér að hugsa pínulítið út fyrir rammann og leyfa sér að hugsa þessa hugsun til enda og sjá að hugmyndin er bara ansi góð af því að hægt er að selja fyrirtækið aftur og aftur.