141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Þetta var áhugaverð ræða hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal og spjall á milli okkar. Ég vil taka fram strax að mér finnst gott þegar menn hugsa út fyrir boxið. Við verðum ekki endilega sammála þótt við hugsum út fyrir boxið eða inni í því, það er annað mál, en hv. þingmaður er ófeiminn við að koma fram með hugmyndir að lausnum og eigum við að sjálfsögðu að þakka fyrir það hvort sem við föllumst á þær eða ekki.

Ég ætla mér í þessari ræðu að fara örlítið í gegnum breytingartillögur við frumvarpið. Ég hef reynt að gera það áður, að mig minnir, við umræðu fjárlaga, að koma inn á nokkrar af tillögunum. Þær eru margar og af ýmsum toga, millifærslur og hitt og þetta, og óþarfi að tína allt til. Ég vil þó byrja á að nefna það sem kom fram í dag í ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar varðandi þjóðgarðana. Það er vitanlega óásættanlegt þegar þjóðgörðum okkar er mismunað svo herfilega eins og verið að gera og búið er að gera þetta kjörtímabil. Það virðist sem þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi sé einhvers konar afgangsstærð í þessum efnum. Auðvitað þarf tekjur til að standa undir útgjöldum þar eins og annars staðar, en fyrst menn útdeila fjármunum í þjóðgarðana er spurning hvort ekki eigi að gera þeim jafnhátt undir höfði. Í breytingartillögum er einmitt tillaga um tímabundið nærri 60 millj. kr. framlag til þjóðgarðsins á Þingvöllum. Ég vil taka fram, frú forseti, að það er eflaust full þörf á þessum fjármunum, en ég gagnrýni að ekki sé jafnt gefið.

Hér eru settir töluverðir fjármunir milli umræðna til Háskóla Íslands. Ég efast ekki um að þörf sé á því. Hér er til dæmis veitt fjármagn til Rannsóknamiðstöðvar HÍ sem ég held að sé full þörf á að setja fjármuni í. Svo eru byggingarframkvæmdir sem eru inni í fjárfestingaráætluninni, 800 milljónir í hús íslenskra fræða. Ég held að það sé eitt þessara verkefna sem hefði þurft að bíða lengur, svo það sé sagt. En þetta er ákvörðun sem meiri hlutinn ætlar greinilega að taka.

Háskólinn í Reykjavík fær hér auknar fjárveitingar. Það er greinilegt að það á að bæta í skólastofnanir sem ég held að sé mjög gott, ef til þess eru fundnir fjármunir. Allar þessar tillögur eiga þó sammerkt að erfitt er að finna því stað í frumvarpinu hvað á að gera fyrir allt þetta ágæta fólk sem kemur út úr skólunum. Auðvitað munu sumir stofna eigin fyrirtæki og hefja rekstur og starfsemi sem er frábært, en ég hef áhyggjur af því að töluvert margir muni eiga erfitt með að finna sér vinnu og leiti því út fyrir landsteinana, því miður.

Hér er meðal annars veitt aukið fé til Kvikmyndaskóla Íslands og fjallað um hann. Ég veit að það er áhugi á því að kenna kvikmyndanám á framhaldsskólastigi í öðrum skólum. Vona ég svo sannarlega að menntamálaráðuneytið geti ýtt því úr vör eins og ráðherra svo sannarlega vill. Ég veit að ráðherra vill það og ég vona að það takist.

Það er verið að setja fjármuni í ýmsar framhaldsdeildir og annað sem er að sjálfsögðu gott ef þær tekjur eru til. Það var ein tillaga, frú forseti, sem ég ætlaði að nefna sérstaklega sem ég finn reyndar ekki akkúrat núna. Hún hlýtur að skila sér.

Ég vil nefna Íslandsstofu. Hér er tillaga um 50 millj. kr. framlag til að auka fjárveitingar vegna greiningar og markaðskynningar á grænum erlendum fjárfestingum hér á landi. Grænar erlendar fjárfestingar á Íslandi. Ég held að fyrsta skrefið hljóti að vera að auka almennt trú fjárfesta á Íslandi áður en farið er að mála verkefni græn, rauð eða gul. Auðvitað viljum við að sem flest og öll fjárfestingarverkefni hér geti talist græn og umhverfisvæn og séu til þess að auka hag og orðspor Íslands en gangi ekki gegn náttúrunni eða gæðum landsins. Ég held að engum þingmanni detti í hug eða öðrum að það sé ákjósanlegt að liðka fyrir öðru en því. Ég held að almennt þurfi að auka trúverðugleika fjárfestinga á Íslandi.

Hér er tillaga um netríkið Ísland, eitt af verkefnum í fjárfestingaráætluninni. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvers vegna á að fara í þetta núna. Það eru 200 millj. kr. sem eiga að fara í sérstakt átak. Um það stendur hér, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 200 millj. kr. framlag til sérstaks átaks í því skyni að efla rafræna stjórnsýslu, þjónustu og lýðræði. Það felur í sér stofnfjárfestingu í nýjum tölvukerfum í samstarfi stofnana ríkis og sveitarfélaga. Um er að ræða eitt af verkefnum í fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013–2015 sem ríkisstjórnin hefur kynnt.“

Svo kemur klausa, eins og í flestum þessara tillagna sem bornar eru hér á borð fyrir okkur, um að óvissa sé um fjármögnun. Þá spyr maður: Er ekki betra að sleppa verkefnum eins og þessu þar sem algjör óvissa er um fjármögnun og hefur í sjálfu sér ekki mikla þýðingu til að bæta stöðu ríkissjóðs, að mér sýnist. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki nógu vel þetta verkefni, en mér finnst eins og þetta sé bara kostnaðarliður sem hefði mátt bíða þangað til betur árar. Ef þetta snýst um að koma einhverjum úr reiknistokkum yfir í tölvur má kannski hafa skilning á því.

Það er eitt mál hér sem ég ætla að leyfa mér að fagna mjög þó að það sé útgjaldaaukandi. Ég vona hægt verði að standa undir því og ekki þurfi að fresta því, það eru auknir fjármunir í tannlækningar. Lagt er til að framlag til tannlækninga verði aukið um 100 milljónir í því skyni að bæta tannheilbrigði barna og fyrirkomulag á tannlæknaþjónustu við börn.

Hér er verið að fylgja úr hlaði áætlun sem byggir á tillögum starfshóps sem skipaður var af velferðarráðherra í maí 2012. Ég held að þarna sé loksins verið að sýna lit í því að efla tannheilsu barna. Ég átti þess kost að funda með tveim fulltrúum tannlækna fyrir nokkru síðan og fá yfirlit yfir það hvernig þróunin hefur verið. Ég verð að segja að hún hefur verið alveg skelfileg frá því skólatannlækningar lögðust af. Ég held að mikilvægt sé að halda því ferli áfram að gera átak í tannheilsu barna.

Svo er komið að tillögu sem ég vakti athygli á áðan í andsvari við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Það er 10 millj. kr. framlag til Jafnréttisstofu. Ég fagna því að styrkja eigi rekstrargrundvöll stofnunarinnar. Ég held að ekki sé vanþörf á því. Við höfum séð í fréttum og annars staðar að ekki má slá slöku við þegar kemur að jafnrétti og því að eyða launamun kynjanna. Það er rétt sem hér kom fram að það hefur tekist ágætlega suður með sjó í Reykjanesbæ og vonandi er hægt að læra af því hvernig það var gert. Það er algjörlega óásættanlegt að fólki sé mismunað eftir kyni eða öðru þegar það gegnir sömu störfum. Það er eitthvað sem við eigum að sjálfsögðu ekki að líða. Það er í raun merkilegt að ekki hafi tekist betur til þegar kemur að jafnrétti kynjanna og launamisrétti hjá ríkisstjórn sem leggur svo mikið upp úr baráttu fyrir kvenfrelsi og slær sig til riddara í þessum efnum, ég tala nú ekki um þær ákúrur og kærur sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fengið á sig fyrir brot á jafnréttislögum. Það er athyglisvert að sjá hversu illa ríkisstjórninni hefur tekist upp í jafnréttismálum.

Umboðsmaður skuldara fær hér aukið fjármagn. Það er orðin mikil stofnun sem reynir að vinna úr skuldum heimila og hjálpa fólki, en því miður verður að segjast eins og er að það úrræði sem best hefði verið var slegið út af borðinu vegna pólitíkur, að ég held, ekki vegna þess að hugmyndin hafi verið vond heldur vegna þess að stjórnarflokkunum hugnaðist ekki að tillagan kom frá stjórnarandstöðuflokki. Þá á ég við hina almennu leiðréttingu á lánum heimilanna sem átti að sjálfsögðu að fara í strax vorið 2009 áður en bankarnir voru einkavæddir af núverandi ríkisstjórn. Þá einkavæðingu þarf að fara mjög alvarlega í gegnum. Ég held að mikil mistök hafi verið gerð þar.

Hér er verið að færa til og laga aðeins til hjá heilbrigðisstofnununum og ég fagna því, því að þar sem ég þekki til er algjörlega útilokað að skera meira niður og hagræða meira en gert hefur verið. Það er ekki hægt að leggja það á þessar stofnanir nema að taka hreinlega ákvörðun um að loka þeim eða loka einstökum deildum eða sviðum. Hér hefur til dæmis komið fram hvernig ástandið er orðið í heilsugæslunni í Snæfellsbæ, en á meðan er hægt að hækka laun eða setja pening í annað.

Hér er athyglisvert verkefni sem ég verð að viðurkenna að kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir; græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana. Þetta er eflaust hið besta mál. Um það segir, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 150 millj. kr. fjárheimild til að standa undir verkefnum í tengslum við græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana. Þar af verði 85 millj. kr. varið til að endurgreiða opinberum stofnunum allt að 20% af kostnaðarverði vöru og þjónustu sem sannanlega uppfyllir nánar tilgreind skilyrði umhverfisvottunar. Þá er gert ráð fyrir að 15 millj. kr. renni til eflingar vistvænum innkaupum og 25 millj. kr. til þess að stuðla að því að Alþingi, ráðuneyti og stofnanir taki græn skref sem feli í sér markvisst umhverfisstarf …“.

Hér kemur hv. þingmaður og tekur græn skref inn í fundarsalinn og er ánægjulegt að sjá formann fjárlaganefndar hér. (Gripið fram í: Vænt sem vel er grænt.) Allt er vænt sem vel er grænt, já. Ég efast ekki um að verkefnið er hið besta, en þetta er eitt af þeim verkefnum sem við höfum eðlilega skiptar skoðanir á hvort eigi að fara í núna eða ekki. Ég hefði haldið að nota ætti þessar 150 milljónir í að bæta þann halla eða niðurskurð, ég vil reyndar leyfa mér að kalla það tjón sem orðið hefur í heilbrigðisþjónustunni undanfarið.

Hér er tillaga sem ég nefndi aðeins áðan og er að mínu viti ánægjuleg, ég veit að ekki eru allir sammála mér, um að auka fjármuni vegna endurgreiðslna á framleiðslukostnaði við kvikmyndagerð á Íslandi. Það sýnir bara og er staðfesting á því hversu mögnuð, mikilvæg og frábær þessi grein er orðin á Íslandi að hér skuli hver stórmyndin á fætur annarri vera tekin upp. Við fáum gríðarlega landkynningu í gegnum þessi verkefni öll, fyrir utan auglýsingar og annað sem er líka tekið upp hér. Ég fagna þessu mjög og tel að við eigum áfram að hasla okkur völl á þessu sviði. En að sjálfsögðu þurfa að vera til fjármunir til að standa við þá samninga sem eru gerðir. Styrkir til kvikmyndagerðar verða að sjálfsögðu líka að vera nægir því þetta eru verkefni sem við megum ekki missa niður.

Síðan er hér athyglisverð tillaga sem ég veit að gleður marga, ekki síst í mínum flokki, en það er 30 millj. kr. tímabundið framlag til endurgreiðslna til sveitarfélaga vegna refaveiða. Það er ákveðin forsenda gefin fyrir framlaginu og sjálfsagt að sveitarfélögin uppfylli hana, en það er mjög mikilvægt að ríkið komi að því að greiða fyrir að eyða þessum vargi, ref og mink. Þetta eru, eins og við vitum og höfum séð myndir af, skaðræðisskepnur í íslenskri náttúru. Það voru í raun herfileg mistök þegar á sínum tíma var ákveðið að búa til friðland fyrir blessaðan refinn eins og hann mundi virða það þegjandi og hljóðalaust — kannski hljóðalaust því að þeir segja mér sem ganga um friðlandið í dag að þar heyrist varla tíst lengur í fugli, vegna vargsins. Ég fagna því þessu, og við skulum reyna að drepa eins mikið af þessum kvikindum og við getum, held ég.

Ég er að verða búinn að fara í gegnum þær tillögur sem ég hafði merkt við. Hér eru tillögur vegna þjóðgarðanna, ég ætla ekki að endurtaka það.

Það væri freistandi, ég geri það kannski síðar, að fara í gegnum alla styrkina, IPA-styrkina, út af þessu Evrópusambandsdóti. Þegar maður fer í gegnum þetta minna ákveðnir hlutir mann alltaf á Evrópusambandið og það er ástæða til að skoða þetta.

Frú forseti. Það eru margar aðrar breytingartillögur í frumvarpinu. Eflaust má segja að flestar ef ekki allar séu ágætistillögur og ekkert athugavert við að þær séu lagðar fram og menn vilji setja fjármuni í þessi verkefni. Ég gagnrýni hins vegar þá forgangsröðun sem er augljóslega í þessu, ekki síst í fjárfestingaráætluninni. Mér finnst að verið sé að setja fé í verkefni sem mörg hver muni ekki gera neitt annað en að auka kostnað okkar þegar fram líður en ekki tekjur. Það eru að koma kosningar. Við verðum að taka mark á því að áherslur stjórnarflokkanna, áherslur vinstri stjórnarinnar — gleymum því ekki að þetta er vinstri stjórn — liggja eðlilega í þeim verkefnum sem lagt er til að fái aukna fjármuni.

Frú forseti. Ég nefndi í fyrri ræðu minni að ég hefði áhyggjur af því hvernig menn ætluðu að standa undir öllum þeim skuldbindingum sem hér eru sjáanlegar og mikil óvissa um. Við erum ekki enn þá búin að sjá hvernig á að afgreiða stórmál eins og Landspítalann, löggæsluna og ýmislegt annað sem á að afgreiða milli 2. og 3. umr. og hvaða áhrif þau hafa. Það er líka ljóst að skiptar skoðanir eru um það hvort yfirlýsingar um að allt sé bjart fram undan standist. Ég held þær standist ekki vegna þeirrar stöðu sem við sjáum í reikningum ríkisins. Skuldirnar eru gríðarlegar. Miklir peningar fara í vexti og það er ekki verið að reyna að höggva í það. Ef fram fer sem horfir finnst manni að skuldirnar muni vaxa frekar en hitt. Þar af leiðir, frú forseti, verða menn að fara varlega í yfirlýsingar eins og þær að kreppunni sé lokið eða að niðurskurðarferlinu sé lokið og eingöngu hagræðing eftir. Hagræðing getur líka verið ósköp fínt orð yfir niðurskurð. Það getur verið að það teljist hagræðing að sameina tvær stofnanir, loka þá annarri stofnuninni, en það er ekkert annað en niðurskurður um leið. Það gæti einhver hagræðing hlotist af. Ég leyfi mér að setja mikinn fyrirvara við það sem hér er verið að gera.

Frú forseti. Mig langar að biðja forseta að setja mig aftur á mælendaskrá því ég ætla að nota næstu ræðu í að ræða um veiðigjald og þá tekjustofna sem lagðir eru til grundvallar frumvarpinu því ég held að þar sé víða pottur brotinn. Ég hef grun um að menn séu að ofáætla tekjur og full ástæða er til að fara í gegnum það.

Ég vil líka segja, frú forseti, að ég sakna þess að sjá ekki fleiri þingmenn taka þátt í þessari umræðu. Þetta eru fjárlög ríkisins og skipta miklu máli því hér er að sjálfsögðu verið að leggja grunninn að næstu árum. Því er eðlilegt að ætlast til þess að þingmenn taki þátt í umræðunni. Ég sakna þess sérstaklega að sjá ekki fleiri kollega mína af landsbyggðinni fara í gegnum tillögurnar því mér sýnist að í mörgum þeirra sé verið að auka mjög álögur á landsbyggðina.