141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég lýsti yfir áðan fagna ég í rauninni að þarna þurfti að auka fjármuni vegna þess að það sýndi ákveðna grósku og að verið væri að framleiða hér kvikmyndir og skapa mikla veltu í kringum þær í samfélaginu.

Ég get svo sem tekið undir með hv. þingmanni að ef til er einhver betri aðferð á hreinlega að skoða hana. En ég er ekki til í að kaupa þessa skattafsláttaraðferð einn, tveir og þrír, því að ég mundi vilja aðeins reyna að átta mig betur á henni. Ég tek þó undir það að vissulega er mikil óvissa sem fylgir því að hafa það svona óklárt hve mikla fjármuni þarf, en ég held alla vega að mikilvægt sé að þessi ívilnun sé með einhverjum hætti áfram. En eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan þarf stundum að hugsa út fyrir boxið og ég er alveg til í að hugsa út fyrir boxið í þessu ef hægt er að finna betri leiðir til að gera þetta.

Ég held að menn verði líka að velta því fyrir sér þegar við ræðum þessa styrki til kvikmyndagerðar hversu mikið við fáum af beinum og óbeinum tekjum af þessu. Ég held að þær umfjallanir sem Ísland fær erlendis séu ómetanlegar þegar kemur í ljós hvar þessar kvikmyndir eru framleiddar. Við sjáum nýlegt dæmi, reyndar frá Nýja-Sjálandi, þar er verið að frumsýna stóra og mikla mynd og hreinlega er eitthvert æði þar í gangi í heimsálfunni, ég er ekki viss um að við gætum endilega komið einhverju slíku af stað og kannski ekki þörf á því.

Mér finnst að við þurfum að vera með opinn huga fyrir því ef til er betri leið, þá skoðum við hana. En ég held að við séum sammála um að þetta verði að vera til staðar með einhverjum hætti.