141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að ræða frumvarp til fjárlaga í 2. umr., nefndarálit og breytingartillögur sem því fylgja. Ég hyggst fara yfir svokallaða fjárfestingaráætlun, hluta af henni að minnsta kosti, í breytingartillögum meiri hlutans sem koma frá ríkisstjórninni. Í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta köllum við þær fjárfestingar sem á að fara í núna á kosningavori skóflustungur kosningaloforða. Það á að taka skóflustungurnar og síðan á að fela öðrum að taka við og klára verkefnin. Það er reyndar gætt varúðar í þessari fjárfestingaráætlun og þar inni er fullt af verkefnum sem ekki er hægt að kalla fjárfestingar í raun og veru, það er að minnsta kosti hægt að setja mjög stór spurningarmerki við það.

Ég vil ræða þetta út frá stöðu ríkissjóðs í heild og þeim gríðarlega miklu skuldum sem hvíla á ríkissjóði og háu vaxtagjöldum sem við erum að greiða. Þau nema 84 milljörðum á næsta ári og á næstu fjórum árum er gert ráð fyrir að við greiðum upp undir 400 milljarða í vexti. Í ljósi þess spyr ég mig að því, virðulegi forseti, hversu skynsamlegt verkefni eins og hús íslenskra fræða er. Það getur vel verið að það sé verðugt og gott verkefni, ég ætla ekki að leggja mat á það, en mín skoðun er, skýrt og skorinort, að á þessum tímapunkti sé mjög óskynsamlegt að fara í svona fjárfestingar. Kostnaður til þriggja ára er 3,4 milljarðar, en 2,4 milljarðar koma úr ríkissjóði og 1 milljarður úr Happdrætti Háskóla Íslands sem má segja kannski að sé sami vasinn. Þetta er reyndar ekki alveg á hreinu vegna þess að bæst gæti við upphæðina. Það kom fram á fundi hv. fjárlaganefndar með fulltrúum fjármálaráðuneytis að upphæðin yrði sennilega 3,7 milljarðar kr. af því að það ætti eftir að reikna með um 300 milljónum í hönnunarkostnað við húsið. Af hverju dreg ég þetta fram? Vegna þess að hér er búið að fara í ákveðna fjárbindingu og menn búnir að skuldbinda sig til að klára þetta á næstu þremur árum og mér finnst mjög óeðlilegt að hægt sé að taka svona ákvarðanir. Það hafa engar upplýsingar komið fram við afgreiðslu málsins núna um hvað það muni kosta að reka húsið. Þegar svona tillögur eru settar fram ætti auðvitað að liggja fyrir hver kostnaðurinn verður, þar sem þetta eykur á útgjöld ríkissjóðs. Það ætti að vera skylda að þær tölur lægju fyrir. Ég fullyrði að þessi framkvæmd er ekki það brýn að hún megi ekki bíða í að minnsta kosti eitt ár, ef ekki tvö eða þrjú ár. Það er fjöldi mikilvægra verkefna sem skynsamlegra væri að fara í við þessi skilyrði.

Þegar hér er rætt um fjárlög, fjáraukalög eða lokafjárlög taka yfirleitt fáir hv. þingmenn þátt í þeirri umræðu. En það er dálítið merkilegt að á sama tíma og fyrir liggja tillögur um að auka útgjöld til Hörpu, vegna þess að rekstraráætlanir og þær forsendur sem menn settu sér hafa ekki gengið eftir, er samt haldið áfram á sömu braut. Væri ekki ágætt að staldra aðeins við? Staldra við í staðinn fyrir að fara í þessar fjárfestingar? Að mínu viti væri hægt að fara í brýnni fjárfestingar. Ég nefni sérstaklega þær fjárfestingar í innviðum sem þarf að fara í í Norðurþingi upp á 2,6 milljarða til að hægt sé að fara í atvinnuuppbyggingu á Bakka, standi það til. Það er auðvitað ein af forsendum hagvaxtarspárinnar.

Það kom fram í umræðunni í gær hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni, varaformanni fjárlaganefndar, að til stæði að það framlag kæmi inn milli 2. og 3. umr. Ég get ekki fullyrt að það komi inn fyrr en ég sé þær tillögur og að staðið verði við þetta. Það kom mjög skýrt fram af hálfu fulltrúa sveitarfélagsins að sveitarfélagið mundi ekki skrifa undir öðruvísi en að þessir fjármunir til uppbyggingar innviða væru tryggðir, til hafnargerðar annars vegar og vegagerðar hins vegar, sem nauðsynlegir eru til að fara í þessa framkvæmd. Það stendur til að skrifað verði undir samning í apríl en það verður ekki gert nema fjármunirnir komi inn. En guð láti gott á vita, eins og stundum er sagt, og kannski munu þeir koma inn milli 2. og 3. umr. og hús íslenskra fræða verði tekið út. Það teldi ég auðvitað miklu skynsamlegra, að byggja undir atvinnuuppbyggingu og það sem þarf að standa undir hagvexti.

Síðan getum við tekið fyrir verkefni eins og sýningu á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Það eru ekki nema 500 milljónir sem fara í að setja upp eina sýningu. En það liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um hana eða neitt samkomulag. Það kom fram í umræðunni í gær að ekki liggur fyrir hvernig þetta skiptist á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins. Það er eðlileg krafa frá hv. þingmönnum að fá að sjá þær upplýsingar áður en ákvörðun er tekin svo þeir geti gert sér grein fyrir hvað þetta þýðir. Síðan segir bara í skýringum með tillögunni að aðgangseyrir muni standa undir rekstrinum. Ég á eftir að sjá það. Við erum nefnilega alltaf að brenna okkur á sömu hlutunum. Við hliðina á þessum tillögum eru svo frekari fjárveitingar í frumvarpinu, tæplega hálfur milljarður, til Hörpu af því að rekstraráætlun hússins gengur ekki upp. Það er reyndar svo komið að forsvarsmenn hússins eru að fara í mál við Reykjavíkurborg til að reyna að fá fasteignagjöldin lækkuð. Til viðbótar þessu er verið að setja aukna fjármuni í Sinfóníuhljómsveitina og til fleiri aðila sem þarna eru inni til að hækka húsaleiguna hjá þeim félögum, til þess einmitt að standa undir þeim greiðslum sem þarf til að reka húsið. Samt höldum við áfram á sömu braut.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki forsvaranlegt meðan staða ríkissjóðs er eins og sem hún er. Það mun ekkert gerast þó að hús íslenskra fræða verði byggt einum, tveimur árum seinna. Það mun ekki hafa nein áhrif. Það væri nær að styðja við ákveðna uppbyggingu á heilbrigðisstofnunum sem nemur auðvitað miklu lægri tölum en þetta. Það þarf að forgangsraða. Við getum líka tekið þessa byggingu sem á að tilheyra þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri, þ.e. gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs. Gerð er tillaga um 290 milljóna framlag til að setja verkefnið af stað en áætlaður heildarkostnaður er 900 milljónir. Þetta er þriggja ára verkefni og það er í raun og veru búið að binda hendur næsta þings mjög mikið.

Þess vegna er ég sannfærður um mikilvægi þess að við setjum okkur ákveðnar fjármálareglur. Við þurfum að setja okkur reglur um hvernig við hyggjumst greiða niður skuldir ríkissjóðs og hvað þurfi að vera í afgang á hverjum tíma til að ná tökum á ríkisfjármálum. Þetta á ekkert endilega bara við núverandi stjórnarmeirihluta. Það er mikilvægt að setja þessar reglur fyrir framtíðina, á sama hátt og við setjum sveitarfélögunum reglur. Af hverju skyldum við ekki gera sömu kröfur til okkar og við gerum til sveitarstjórnarmanna? Það er jafnmikið barið á sveitarstjórnarmönnum og hv. þingmönnum. Það er nóg af krefjandi verkefnum varðandi grunnþjónustuna hjá þeim. Þar verða sveitarstjórnarmennirnir að raða inn í ákveðinn ramma, annars fá þeir áminningu frá ríkisvaldinu og eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Af hverju gerum við ekki sömu kröfur til okkar? Það er mjög mikilvægt að við gerum það. Við eigum að ná samkomulagi um þetta og síðan geta menn, þegar hagurinn batnar, haft einhver vikmörk í því hver afgangurinn má vera. En á meðan við erum að koma skuldastöðu ríkissjóðs niður fyrir ákveðna prósentu er mikilvægt að gera þetta. Það eru mikilvægustu verkefnin í ríkisfjármálum fram undan.