141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ein grunnstærð og ein forsenda fjárlagafrumvarpsins er áætlaður hagvöxtur, spá manna um það hvernig hagkerfinu reiðir af á næsta ári. Ég vek athygli þingheims á ummælum sem birtust nýverið í Peningamálum Seðlabankans þar sem vakin var athygli á því að heildarfjöldi vinnustunda hafði ekki vaxið sem neinu næmi. Það vekur auðvitað athygli. Á sama tíma mælum við hagvöxt og þá er uppi spurningin: Hvernig kemur hann til? Ef það er engin marktæk fjölgun unninna vinnustunda þýðir það að ef það er hagvöxtur hlýtur hann að vera vegna aukinnar framleiðni í hagkerfinu, að framleiðnin hafi tekið kipp.

Í Peningamálum Seðlabankans er því velt upp hvort það geti verið að framleiðniaukningin sé þetta mikil eða hvort við séum að ofmeta og ofmæla hagvöxtinn. Í þessu samhengi er rétt að benda á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn dró í sinni spá heldur úr væntingum manna um hagvöxt á næstu árum. Endurskoðaðar spár undanfarið hjá þeim sem um þessi mál véla hafa meira og minna verið allar á einn veg, að lækka spárnar.

Þar hefur áhrif staða efnahagsmála í Evrópu almennt og við því að búast að þess sjái stað. Á sama tíma getum við ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að ýmsar þær framkvæmdir og aðgerðir sem reiknað var með að gripið yrði til hafa ekki gengið fram, hafa ekki orðið að veruleika, og því hafa væntingar manna um hagvöxt færst niður á við. Fyrir okkur er þetta alvarlegt mál vegna þess að það var mjög nauðsynlegt að íslenska hagkerfið yxi hratt eftir hið mikla fall í kjölfar hruns viðskiptabankanna. Það skipti miklu máli að hagvöxturinn yrði umtalsvert mikill vegna þess að þannig og bara þannig var hægt að draga hratt úr atvinnuleysinu og auka tekjur ríkissjóðs, mæta tekjufallinu.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið gerðu sína kjarasamninga á þeim forsendum að hagvöxturinn yrði hér á því róli sem til dæmis Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði talið mögulegt. Við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti, að aldurssamsetning þjóðarinnar er blessunarlega þannig að fjölgun inn á vinnumarkaðinn, þ.e. fjöldi þeirra sem koma nýir inn á vinnumarkað, gerir það að verkum að það eru tækifæri fyrir okkur til að vaxa hraðar en til dæmis margar nágrannaþjóðir okkar sem búa við allt öðruvísi samsetningu þjóðfélagsins hvað varðar aldursdreifingu. Með öðrum orðum er enn að fjölga inn á vinnumarkaðinn. Það þarf sennilega upp undir 1% hagvöxt bara til að taka við þeim sem koma nýir inn á vinnumarkaðinn umfram þá sem fara af vinnumarkaði, langleiðina í 1% bara út af því. Til að vinna á atvinnuleysinu þarf hagvöxt, það gerist ekki öðruvísi, nema auðvitað menn grípi til alls konar reiknikúnsta, færi fólk af atvinnuleysisskrám, láti það detta út af eða skrái það með einhverjum öðrum hætti, ekki sem atvinnulaust. Auðvitað er það allt saman þekkt umræða.

Þessi ábending Seðlabankans varðandi hagvöxtinn og fjölda vinnustunda er mjög til umhugsunar. Það hefur auðvitað mikið að gera með og skiptir miklu máli fyrir — [Tveir þingmenn ganga hjá ræðupúlti með A4-blað sem á stendur MÁLÞÓF.]

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Lætur forseti þetta óátalið, þessa framkomu og hegðan þingmanna? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti er ekki alveg með það á hreinu hvað hv. þingmaður á við.)

Þá mun ég halda áfram ræðu minni. Það verður þó að segjast eins og er að ég átti svo sem von á svona framkomu og hegðan hjá öðrum þeim þingmanna sem hér gekk fyrir pontuna, en ég verð að játa að ég átti ekki von á því hjá báðum þeim, en báðir hafa orðið sér til minnkunar.

Virðulegi forseti. Hagvaxtarspárnar sem eru grunngagn og skipta öllu um það hvernig gengur að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur varðandi ríkissjóð eru grundvallaratriði vegna þess að ef okkur tekst ekki að draga úr lánsfjárþörf ríkissjóðs verður okkur ekki kleift og það verður ómögulegt að ætla sér að reyna að lyfta gjaldeyrishöftunum. Gjaldeyrishöftin eru að verða einhver mesti dragbítur á alla efnahagsstarfsemina í landinu. Allar okkar aðgerðir og öll okkar efnahagsstjórn verður að miða að því að tryggja að það sé hægt að létta höftunum.

Nú kann að vera, virðulegi forseti, að ýmsum hv. þingmönnum þyki litlu skipta hvernig að þessu er staðið og hafi það jafnvel í flimtingum. Það kemur mér ekki á óvart, virðulegi forseti, og skýrir ýmislegt af því sem hér hefur verið í hagstjórn og almennt auðvitað í stjórnmálalífi okkar, að í jafnalvarlegu máli og afgreiðslu á fjárlögum íslenska ríkisins skuli hv. þingmenn nálgast þá umræðu sem vit þeirra og þekking nær til eins og ég varð vitni að hér áðan.

Virðulegi forseti. Ég ætla mér að taka dæmi um aðgerð sem hefði skipt verulega miklu máli til að auka atvinnu og þar með hagvöxt. Tryggingagjaldið sem leggst ofan á launakostnaðinn beint er mjög til þess fallið að draga úr og minnka atvinnu. Í hvert skipti sem launagreiðandi ræður mann í vinnu leggst þessi kostnaður ofan á launin. Ein af þeim forsendum sem lágu til grundvallar síðustu kjarasamningum var að tryggingagjaldið yrði lækkað þannig að hægt væri að ráða fleira fólk í vinnu. Það var forsenda fyrir kjarasamningum. Og enn á ný vitna ég til orða forseta Alþýðusambandsins sem gaf álit sitt á því fjárlagafrumvarpi sem við erum að ræða hér. Hann sagði að með þessu fjárlagafrumvarpi, ef það verður að lögum, sé verið að éta upp og eyða því svigrúmi sem fyrirtækin hafa til að hækka launin.

Samtök atvinnulífsins minna á það loforð sem gefið var sem var forsenda þess að kjarasamningar náðust, að staðið yrði við það að lækka þetta gjald. Af hverju skiptir það máli, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að atvinnuleysið er enn þá of mikið. Það er það sem skiptir svo miklu máli þegar kemur enn og aftur að fjárlagafrumvarpinu, spurningin: Er það til þess fallið, þegar kemur að samspili í efnahagsstjórninni, að auka atvinnu í landinu? Og er það til þess fallið að draga úr verðbólgu og verðbólguvæntingum?

Afstaða Seðlabankans hefur komið fram, áhyggjur hans af stöðu mála, og þeirra sem fara með mál á vinnumarkaði, þeirra sem þurfa að standa frammi fyrir því að ná samningum um kaup og kjör. Þeir sjá að þetta frumvarp er til þess fallið að auka verðbólguna.

Við höfum enn þá tíma, virðulegi forseti, til að gera breytingar á þessu fjárlagafrumvarpi. Ég játa að ég geri mér ekki neinar sérstakar vonir um að hv. þingmenn af þeirri gerð, þeirri stærð og sem hafa til að bera þá alvöru sem ég varð vitni að áðan hafi neitt fram að færa um það hvernig á að taka á þeim stóru málum sem við okkur blasa. En við hin, aðrir hv. þingmenn, berum ábyrgð, m.a. á því að bregðast við ummælum og athugasemdum frá forustumönnum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins.

Ef þetta frumvarp er bæði verðbólguhvetjandi og dregur úr og eyðir jafnvel möguleikum fyrirtækja til að standa undir launasamningunum, og ég efa það ekki, hljótum við að bregðast við.

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að hagvaxtarspárnar skipta svo miklu máli verður ljós þegar menn velta fyrir sér hver staða okkar væri ef þær spár hefðu gengið eftir sem voru gerðar af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleirum á árunum eftir hrun viðskiptabankanna. Það er mat þeirra sem hafa skoðað þetta mál að þegar menn bera saman annars vegar þann hagvöxt sem stefnir í á þessu ári og út næsta og síðan þær hagvaxtarspár sem lágu fyrir muni um það bil 100 milljörðum á stærð hagkerfisins. Hvað þýðir það fyrir ríkissjóð? Það þýðir upp undir 30 milljarða í tekjur á ári. Ef hagvaxtarspárnar hefðu gengið eftir hefðu þær skilað því að íslenska hagkerfið hefði við árslok 2014 verið 100 milljörðum stærra en raun bar vitni.

Virðulegi forseti. 30 milljarðar eru umtalsvert há upphæð. Setjum hana í samhengi við stærðir sem við þekkjum, t.d. reksturinn á Landspítalanum sem er einhvers staðar um og yfir 40 milljarðar á ári. Þar liggur fyrir að það þarf nauðsynlega að bregðast myndarlega við til að hægt sé að fjárfesta í þeim tækjum sem nauðsynleg eru til reksturs slíks spítala. Skyldi ekki muna um það ef tekjur ríkisins væru 30 milljörðum hærri á ári?

Gefum okkur að þetta hefði ekki gengið eftir að fullu og bara 10 milljarðar hefðu skilað sér umfram tekjurnar og þá án þess að skattarnir væru hækkaðir, með öðrum orðum að einungis þriðjungurinn af muninum hefði gengið eftir, þá hefðu samt 10 milljarðar í auknar tekjur án skattahækkana skipt gríðarlega miklu máli fyrir ríkissjóð.

Þess vegna, virðulegi forseti, hljótum við að horfa til þess þegar kemur að mati okkar á þessu frumvarpi, hvort það sé til þess fallið að auka hér hagvöxt. Aukinn hagvöxtur þýðir að við getum betur rekið skólana og sjúkrahúsin, að við getum betur veitt þá þjónustu sem samstaða er um að veita.

Ég hef séð það meðan ég hef verið að flytja ræðu mína og þegar þeir gengu fram fyrir pontuna, hv. þingmenn Lúðvík Geirsson og Björn Valur Gíslason, að það er kannski ekki ástæða til að ætlast til þess að það fari fram vitræn umræða um fjárlög við þá hv. þingmenn. Þroski þeirra og vit kom berlega fram þannig að ég geri mér ekki neinar sérstakar væntingar þar um. En ég veit að í stjórnarliðinu er alvarlega þenkjandi fólk. Ég veit að þar eru innan búðar einstaklingar sem bæði hafa vit á efnahagsmálum og sannfæringu fyrir því að það sem við erum að gera á þingi skipti máli.

Það skiptir engu máli þó að framkoma þeirra hv. tveggja þingmanna, sem virðist hafa farið fram hjá forseta, hafi verið eins og hún var. Það skiptir engu máli fyrir fólkið í landinu og það skiptir engu máli fyrir það verkefni sem við erum að fást við. Hún er auðvitað meiðandi og slæm fyrir þá hv. þingmenn sjálfa, en ég trúi því og vona að þeir sem í stjórnarliðinu eru alvarlega þenkjandi um þessi mál setjist aðeins yfir þetta fjárlagafrumvarp, taki tillit til þeirra varnaðarorða sem hafa komið fram, einkum og sér í lagi af hálfu þeirra sem eru á vinnumarkaðnum, þurfa að semja um kaup og kjör almennings í landinu og hafa lýst yfir áhyggjum sínum og vonbrigðum og sagt: Þetta er til þess fallið að gera okkur erfiðara um vik að ná kjarasamningum.

Það er tími til þess, virðulegi forseti, við eigum eftir nokkrar vikur í desember til að fara yfir þessi mál. Nefndin hefur nægan tíma, Alþingi Íslendinga hefur nægan tíma til að bregðast við þessu. Það er ekki hægt að hafa það þannig, virðulegi forseti, sama hvað stjórnarmeirihlutanum að öðru leyti liggur á að losna við umræðu um fjárlög til að komast í einhver önnur mál að við tökum ekki verkefni okkar alvarlega.

Þeir hv. tveir þingmenn sem hér gengu áðan fram fyrir pontu taka verkefni sitt þeim tökum sem við sáum. Af því að stundum er haft á orði að virðing Alþingis mætti vera meiri sem og traust manna á Alþingi hlýt ég að lýsa þeirri von minni að ekki hafi margir fylgst með þessari útsendingu og að blaðamenn sérstaklega fari mjúkum höndum um þessa ágætu menn og sleppi því að birta af þeim myndir. Virðing Alþingis er mun mikilvægari en orðspor þessara hv. þingmanna og það skiptir okkur öll máli að þjóðin hafi trú á því að við sinnum verkefni okkar hér af alvöru og trúmennsku, og alveg sérstaklega þegar við erum að ræða um fjárlög íslenska ríkisins, hvernig farið verður með stóran hluta af þjóðarframleiðslunni og henni ráðstafað. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir þjóðina alla að við vinnum verk okkar af trúmennsku hvað þetta varðar.