141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nú svolítið sérstakt að verða vitni að þeim aulagangi sem átti sér stað áðan, ef hægt er að kalla það það. Einhverjum kann að finnast það fyndið en þetta er nú kannski ástæðan fyrir því að umræðan um Alþingi er eins og hún er, en við förum nánar yfir það síðar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu og greiningu á því frumvarpi sem við fjöllum um. Hann fjallaði um frumvarpið út frá sérþekkingu sinni sem hagfræðings. Ég verð að segja að það setur að manni töluverðan ótta við þær lýsingar og þann rökstuðning sem hv. þingmaður hafði hér uppi um að væntanlega er þetta frumvarp gæti verið verðbólguhvetjandi, ef ég hef tekið rétt eftir. Ég var nú reyndar svolítið annars hugar um tíma. Þá veltir maður fyrir sér: Á hverjum mun það bitna ef fjárlagafrumvarpið verður til þess að auka verðbólguna enn meira en orðið er?

Stjórnarflokkarnir hafa engu skeytt um verðbólgu eða verðtryggingu. Ég veit að það eru skiptar skoðanir um hvort hægt sé og hvort það sé yfirleitt kostur að afnema verðtrygginguna. Við höfum lagt áherslu á það, þingmenn Framsóknarflokksins, að reynt sé að takmarka áhrif hennar í ákveðnum skrefum, setja þak á verðbólgu og annað. En það er áhyggjuefni sem hv. þingmaður lýsir og færir fyrir því rök að hér sé á ferðinni fjárlagafrumvarp sem líklega muni koma einna verst niður á heimilum og íbúum landsins.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann hvort lýsa megi frumvarpinu sem einhvers konar hagstjórnarslysi eða einhverju slíku. Er verið að fara af stað með mál sem hvorki er fugl né fiskur og ekki á vetur setjandi?