141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Hv. þm. Lúðvík Geirsson verður örugglega ekki lengi á þingi. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á þessu. Hv. þm. Lúðvík Geirsson verður örugglega ekki lengi á þingi. Það er kannski samt tími til að læra hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Það er rétt sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kom að, eitthvert samkomulag í fjárlaganefnd er ekki samkomulag sem þingflokksformenn gera sín á milli. Um þennan dag hefur ekkert samkomulag verið gert milli þingflokksformanna.

Ég veit ekki í hvaða heimi þeir eru, þeir þingflokksformenn sem telja sig hafa fengið slíkt samkomulag einhvers staðar. Það er að minnsta kosti ekki við þann er hér stendur, það er alveg ljóst, það hefur þá verið á einhverjum öðrum þingflokksformannafundi. Það breytir þó engu um það að framkoma þingmannsins er jafnömurleg. En hann verður að eiga það við sjálfan sig, að sjálfsögðu. En það kemur hér sýknt og heilagt í ljós að þingmenn stjórnarflokkanna bera enga virðingu fyrir Alþingi og enga virðingu fyrir (Forseti hringir.) störfum sínum. Það er bara ágætt að sjá þá kumpána hér sem eru væntanlega á leið út af þingi.