141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Maður sem hefur starfað jafnlengi í stjórnmálum og hv. þm. Lúðvík Geirsson á að vita hvenær maður gengur aðeins of langt og hafa vit á því að koma hér og biðja okkur öll sem hér vorum í salnum, og Alþingi allt, afsökunar. Það er ekki of seint að gera það og ég hvet hv. þingmann til að kveðja sér hljóðs og gera það.

Ef hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn vilja ræða um hvernig nefndarstörfum var háttað og hvort eitthvert samkomulag hafi verið í gildi eða ekki er hægt að gera það úr ræðustól í ræðu eða biðja um fund með þingflokksformönnum. Þegar menn ganga svona langt og brjóta á almennum vinnubrögðum í þingsal, brjóta þingsköpin og brjóta gegn almennum hátternisreglum okkar allra það mjög að manni misbýður fullkomlega eiga menn að hafa vit á því að biðjast afsökunar.