141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

uppbygging iðnaðar við Húsavík.

[15:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Sá ráðherra sem hér talaði er ábyrg fyrir áætlun stjórnvalda um losun gróðurhúsalofttegunda þar sem markmiðið er að draga úr losun fram til ársins 2020.

Ég skil orð hennar þannig að það sé ekkert í þessum verkefnum sem við vitum ekki umfangið á. Við vitum hver losunin er. Við vitum hversu stórar verksmiðjur þeir vilja reisa. Ekkert í áformum þessara aðila kemur í veg fyrir að ríkisstjórnin nái markmiðum sínum um losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2020 vegna þess að ef svo er þá er það núna sem menn eiga að láta í sér heyra.

Við höfum aldrei verið talsmenn þess að það sé ein starfsemi umfram aðra sem við kjósum að komi til landsins. Við viljum bara uppbyggingu og nýtingu þeirra auðlinda sem við Íslendingar höfum úr að spila. Þess vegna fögnum við áformum um uppbyggingu á þessu svæði og köllum eftir því að menn komi í tíma með efnislegar athugasemdir á borð við þær sem ég hef hér vakið athygli á. Ég heyri ekki frá ráðherranum að það sé neitt í starfseminni sjálfri (Forseti hringir.) sem komi í veg fyrir að áform ríkisstjórnarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda standist.