141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

uppbygging iðnaðar við Húsavík.

[15:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað afar mikilvægt verkefni fram undan og það verður viðfangsefni ríkisstjórna næstu ára og áratuga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er svo með stóriðjuna að hún heyrir undir evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir en ekki staðbundnar heimildir. Að því leytinu til erum við að tala um samdrátt í losun á svæðinu í heild og það á bæði við um stóriðjuna og flugið, en það sem brýnast er þarna fyrir utan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er að hver sú framkvæmd sem þarna verður farið í verði þeirrar gerðar að náttúran sé látin njóta vafans og við séum ekki að taka óþarfa áhættu á kostnað mjög dýrmætra náttúruminja sem eru á þessu svæði. Ég nefni í því sambandi Mývatn.