141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

álkaplaverksmiðja á Seyðisfirði.

[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins kom fram að ekkert yrði af fyrirhugaðri álkaplaverksmiðju á Seyðisfirði vegna þess að menn hefðu gefist upp á biðinni eftir því að forsendur væru uppfylltar hér á landi og selt verksmiðjuna, sem var í Noregi, annað. Fram kom í viðtali við Sigfinn Mikaelsson sem stýrði verkefninu að það hefði gengið ágætlega að safna eigin fé í þessa framkvæmd. Það væri komið í 500 millj. kr. en 800 millj. kr. hefði þurft vegna þess að gerð var krafa af hálfu banka um 50% eiginfjárhlutfall. Það er býsna hátt en engu að síður hafði gengið prýðisvel að safna eigin fé nema hvað það skorti mjög á svör frá ríkisvaldinu um hugsanlega aðkomu þess, t.d. í gegnum Byggðastofnun. Verkefnisstjórinn sagði að kallað hefði verið eftir pólitískri ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar en hún hefði ekki fengist og þar af leiðandi hefði það orðið niðurstaðan að falla frá verkefninu sem hefði skapað 35 störf á Seyðisfirði beint og ef við notum þá þumalputtaviðmiðun að álíka mörg afleidd störf sköpuðust hefðu þau orðið 70 í bæjarfélagi þar sem íbúarnir eru nú innan við 700. Ljóst er að það hefði skipt sköpum fyrir atvinnumál á staðnum og því hlyti það að hafa verið mikið kappsmál fyrir ríkisvaldið, þó ekki væri nema af efnahagslegum ástæðum, að ýta undir slíkt og við það bætast að sjálfsögðu samfélagsleg áhrif af slíkri framkvæmd. En sú pólitíska ákvörðun sem beðið var eftir kom aldrei og verkefnið fór annað.

Hvers vegna kom ekki sú pólitíska ákvörðun sem kallað var eftir í tengslum við þetta verkefni?