141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

álkaplaverksmiðja á Seyðisfirði.

[15:12]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég fylgdist vel með þessu máli og var mjög áhugasamur um það og átti þátt í að koma hreyfingu á viðræður milli aðila eftir að þær höfðu strandað um það bil hálfu ári áður en þetta lognaðist út af eða bakslag kom í málið þrátt fyrir mikinn hug heimamanna og ágætisvilja Síldarvinnslunnar og Byggðastofnunar til að taka þátt í verkefninu. Það lá alveg fyrir að Byggðastofnun hafði stuðning til að taka þátt í því fyrir sitt leyti og hún ætlaði að gera það í gegnum fjárfestingarfélag sem Byggðastofnun og Síldarvinnslan eiga saman og sá aðili ætlaði að taka stóran hlut í þessu verkefni. En meginumsóknin um þátttöku lá hjá Framtakssjóði Íslands, framtakssjóði lífeyrissjóðanna, og niðurstaða þeirra var að hafna þátttöku í verkefninu og þá kom mikið bakslag og verkefnið komst í raun og veru aldrei á skrið aftur.

Það er einhver misskilningur í gangi um að verkefnið hafi strandað sérstaklega á því að ekki hafi verið teknar pólitískar ákvarðanir eða ekki hafi verið stuðningur við það af hálfu stjórnvalda, þvert á móti var hann sannarlega til staðar. Það var alveg ljóst að Byggðastofnun yrði studd til þess að taka þátt í þessu fyrir sitt leyti á þeim forsendum sem hún hafði lagt upp með, að vera með í þessu sem býsna stór aðili í samstarfi við Síldarvinnsluna í Neskaupstað í gegnum fjárfestingarsjóð þessara aðila. Það var höfnun Framtakssjóðsins á að taka þátt og koma sem stór kjölfestuaðili inn í þessa fjárfestingu sem setti bakslag í verkefnið og það komst í raun og veru aldrei á skrið eftir það. Þannig þekki ég best til þessa máls.