141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

álkaplaverksmiðja á Seyðisfirði.

[15:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ekki var annað að skilja af fréttaflutningi um þetta mál en að það hefði náð fram að ganga ef aðkoma Byggðastofnunar hefði verið trygg og pólitískur vilji til staðar. Hæstv. ráðherra hefur lýst því mjög afdráttarlaust að það sé mat sitt að sá pólitíski vilji hafi verið til staðar og verið ljós en bendir á að málið hafi strandað á framtakssjóði lífeyrissjóðanna. Það er þá nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort hægt hefði verið að klára verkefnið eður ei ef Byggðastofnun hefði komið að því, eins og hæstv. ráðherra segir að hefði verið vel framkvæmanlegt.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvað honum finnst um það að Framtakssjóður lífeyrissjóðanna skuli ekki hafa viljað koma að þessu verkefni. Raunar hefur þessi sjóður, sem átti að stuðla að atvinnuuppbyggingu vítt og breitt um land, verið vægast sagt passasamur (Forseti hringir.) og ekki hvað síst í nýjum atvinnuverkefnum en þó frekar einbeitt sér að fjárfestingum í fyrirtækjum sem eru þegar til staðar.