141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

undirbúningur olíuleitar.

[15:18]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að reynt hafi verið að undirbúa þessa leyfisveitingu eins vel og mögulegt er og vanda til verka í þeim efnum. Íslensk stjórnvöld hafa átt talsvert samstarf við norsk og jafnvel færeysk stjórnvöld þar sem komin er meiri reynsla á þessa hluti. Í þeim skilningi tel ég að það sé jákvætt að fá Norðmenn með. Þeir búa yfir mjög mikilli reynslu á þessu sviði. Þetta er ríkisolíufélag sem þarna verður þátttakandi í þessum tveimur sérleyfum sem nú verða gefin út. En ég er ekki ósammála, nema síður sé, áherslunum sem komu í umsögn umhverfisráðuneytisins. Ég held að það sé alveg ljóst að við þurfum að nota tímann mjög vel til að undirbúa ýmislegt sem snýr meðal annars að öryggis- og umhverfisþáttum þessara mála, að samfélagslegum þáttum og hvernig staðið verður að þjónustu héðan, af Íslands hálfu, inn á þetta svæði. Það þarf að horfa þar annars vegar til skemmri tíma, þ.e. þess sem tengist rannsóknar- og leitartímabilinu ef svo má að orði komast og undirbúa svo auðvitað af kostgæfni ef til frekara framhalds kemur.

Nú held ég að við eigum ekki að fara fram úr okkur. Það er náttúrlega ekki búið að finna þarna olíu og augljóst að einhver ár eru í það að leitar- og rannsóknarþátturinn sem nú fer af stað skili sér í slíkum hlutum ef svo færi. Engu að síður tel ég mjög mikilvægt að nota tímann vel. Við þurfum að gæta þess að við höfum stjórnsýslu og umbúnað og sérþekkingu til að standa vel að þessum málum af okkar hálfu. Þar er nærtækt að líta til fordæmanna frá Noregi og til dæmis Færeyjum þar sem við eigum góðu að mæta ef við óskum eftir auknu samstarfi eða stuðningi þaðan til að efla okkar getu á þessu sviði.