141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

lögmæti verðtryggingar.

[15:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra sem yfirmanns dómsmála hér á landi. Það er nú svo að verðtryggingin hefur verið bitbein í íslensku samfélagi um allnokkra hríð og í nokkra áratugi, alla vega eina tvo. Um helgina upplýstist að ákveðinn einstaklingur, háskólaprófessor, ætlar að senda erindi til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, varðandi það hvort verðtryggingin standist Evrópulög.

Fyrir ári fór hópur Íslendinga með svipað erindi til ESA, lagði þar inn þær efasemdir að líklega mundi verðtryggingin ekki standast Evrópureglugerðir eða evrópsk lög sem við Íslendingar höfum tekið upp í gegnum EES-samninginn, byggðar á fjórfrelsinu vegna þess að þetta fellur undir frjálst flæði fjármagns. ESA heldur ár hvert fund í hverju EFTA-ríkjanna og á þeim fundi gefst tækifæri til að ræða mál sem eru óskýr og geta þá bæði löndin sem að stofnuninni standa, og eins stofnunin sjálf, tekið mál sjálfstætt á dagskrá.

Mig langar í framhaldi af þessu að spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hefur það verið rætt í ríkisstjórninni, eftir að hann tók sæti í ríkisstjórninni, hvort framkvæmdarvaldið sjálft ætti ekki að standa fyrir svona erindisbeiðni til ESA til þess að flýta fyrir dómsmálum hér á landi varðandi verðtrygginguna eða þá að flýta fyrir því að hægt sé að endurreisa heimilin og fá eitthvert jafnræði milli lántaka sem eru með verðtryggð lán og lántaka með gengistryggð lán. Ef þetta hefur ekki verið tekið fyrir á fundum ríkisstjórnarinnar er þess þá að vænta að framkvæmdarvaldið skipti sér að einhverju leyti af þessu?