141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Fréttir berast af því í fjölmiðlum, nú síðast að afloknum þingflokksfundi Samfylkingarinnar, að von sé á nýju frumvarpi um fiskveiðistjórnarmálin. Samkvæmt fréttum hefur tekist að afgreiða málið úr báðum þingflokkunum þó að fyrirvararnir séu víst einhverjir hjá Samfylkingunni.

Þar sem við í stjórnarandstöðunni höfum ekki fengið að sjá þetta frumvarp frekar en fyrri daginn langar mig að spyrja hæstv. atvinnuvegaráðherra hvort eitthvert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila eða hvort sérfræðingar hafi komið að því, t.d. þeir sem gagnrýndu fyrri frumvörp ráðherra eða ríkisstjórnar. Ég spyr hvort þetta frumvarp taki á einhvern hátt mið af þeirri miklu gagnrýni sem áður hefur komið fram á frumvörp frá ríkisstjórninni um þetta efni?

Samkvæmt fjölmiðlum — og ég verð að vitna til fjölmiðlaumfjöllunar þar sem okkur hefur ekki verið sýnt þetta frumvarp — er það nánast óbreytt frá því sem við vorum að ræða í vor. Þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort það geti verið að það sé satt. Við vitum öll örlög þess frumvarps og þeirra sem áður hafa verið lögð hérna fram — og ég verð að viðurkenna að ég er búin að missa töluna á því, hvort þetta er í þriðja eða fjórða skiptið sem við erum að fara að takast á um þessi mál. Er það virkilega þannig að þetta sé óbreytt? Ætlar hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra að leggja á það áherslu að þetta mál klárist á þessu þingi og hvenær þá? Á nokkuð að reyna að klára þetta fyrir jól úr þessu? Hver er fyrirætlan hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum? Eins og við vitum eru ekki mjög margir þingdagar eftir fram að kosningum.