141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra tókst að róa mig með jólafriðinn en ég verð að viðurkenna að þar lýkur þeirri ró. Mér heyrðist á hæstv. ráðherra, en hann svaraði því ekki beint hvort samráð hefði verið haft við hagsmunaaðila og sérfræðinga, að tekið hefði verið tillit til einstakra þátta. Ég verð að bíða og sjá uns frumvarpið kemur fyrir þingið. Það vekur óneitanlega hjá mér ugg vegna þess að mér finnst þetta vera endurtekið efni. Hér er að koma inn frumvarp sem ríkisstjórnin leggur allt kapp á, ekki til að ná sem breiðastri sátt um það heldur er þetta aftur og ítrekað þannig að ná þarf málamiðlun innan stjórnarflokkanna og þegar sú málamiðlun er komin (Forseti hringir.) er afurðin orðin skelfileg og engu má breyta. Ég óttast að hæstv. ríkisstjórn hafi ekkert lært (Forseti hringir.) í þessum efnum.