141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:34]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Það er einfalt að svara því, það hefur ekki verið fundað sérstaklega með hagsmunaaðilum um þetta mál núna, enda gjörþekkjum við öll sjónarmið. Þau liggja fyrir. Hér er um að ræða yfirferð á frumvörpum sem áður hafa komið fram og hafa farið út til umsagnar og allir átt kost á að koma sjónarmiðum sínum að þannig að við þekkjum vel hvernig landið liggur í þeim efnum. Við vitum líka að þetta er umdeilt mál á alla enda og kanta og það mun sennilega ekki breytast á þessum dögum frekar en endranær.

Varðandi stöðuna í þinginu þakka ég fyrir að þingmaður tekur því vel sem ég stakk upp á, að þetta mál fengi að fara til nefndar fyrir jól, enda eru aðstæður hér mjög góðar eins og kunnugt er. Við erum óvenjusnemma á ferðinni með fjárlagaafgreiðsluna, búin að ræða fjárlög í heila tvo daga við 2. umr. þannig að því hlýtur að fara að ljúka og þá erum við óvenjuvel á vegi stödd með það að ljúka störfum á þingi fyrir jól, enda um ánægjulegt fjárlagafrumvarp að ræða sem er nánast án halla á ríkissjóði. (Gripið fram í.) Það hlýtur (Forseti hringir.) að gleðja alla hv. þingmenn að eiga nú kost á því undir lok kjörtímabilsins að fjalla um fjárlagafrumvarp með halla upp á innan við 0,3% af vergri landsframleiðslu. (Gripið fram í.)