141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

fyrirkomulag fjárlagaumræðunnar.

[15:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Því var haldið fram í þessum ræðustól og víðar að einhvers konar samkomulag hefði verið gert í fjárlaganefnd og um leið við þástarfandi þingforseta. Nú hefur það komið fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að ekkert slíkt samkomulag var gert. Það er rangt sem haldið hefur verið fram um þessi mál að slíkt samkomulag hafi legið fyrir, enda væri það í sjálfu sér marklaust samkomulag gert í fjárlaganefnd ef ekki fylgdi síðan samkomulag þingflokksformanna við þingforseta. Ekkert slíkt samkomulag hefur verið gert um lok þessarar umræðu, ekki af hálfu þess sem hér stendur og fram hefur komið af hálfu þingflokksformanns Framsóknarflokksins að hann hafi heldur ekki gengist undir slíkt samkomulag.

Málið ætti nú að vera skýrt. Þeir sem hafa farið hér fram með yfirlýsingu um annað verða auðvitað að hugsa sinn gang um það mál. Eitthvað hefur greinilega skolast til.