141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

fyrirkomulag fjárlagaumræðunnar.

[15:43]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að benda á þá staðreynd að reynsla mín og ef til vill þingmanna Hreyfingarinnar o.fl. af því sem Alþingi kallar samkomulag er ekki endilega sama skilgreining og venjulegt fólk utan veggja hússins notar um samkomulag. Við höfum átt aðild að þónokkrum samkomulögum við þingmenn, formenn þingflokka, forseta þingsins. Sum þeirra hafa verið undirskrifuð. Þau hafa nákvæmlega ekkert gildi innan þessara veggja.

Það er rétt að halda því til haga í þeim sýndarveruleika sem ég heyri fólk lifa hér og hrærast í að samkomulag milli þingmanna, þingflokka, þingflokksformanna eða annarra í þessu húsi, eins og ég sagði áðan, hefur ekkert gildi og er bara til skrauts til að reyna að ná í einhver umræðuefni til að rífast um hér í púltinu.