141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Ég vil kannski byrja á að taka á svokölluðum safnliðum vegna þess að ég sat þá í menntamálanefnd, frekar en allsherjar- og menntamálanefnd, og ég var sammála því að hverfa frá því verklagi sem þá var.

Ég verð hins vegar að hryggja hv. þingmann að mér þykir sem menn séu farnir að færa sig aftur inn á það sem var, vegna þess að safnliðum sem er úthlutað, það hefur gengið ágætlega í umsjón sveitarfélaga í gegnum menningarsamningana og annað þess háttar þrátt fyrir niðurskurð á safnliðum. En núna í þessum pakka, í tillögum ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar, er verið að breyta þessu vegna þess að í meirihlutatillögum fjárlaganefndar eru menn að ákveða að úthluta sérstaklega af fjárlögum til einstakra verkefna sem tilheyra að mínu mati menningarsamningum þess landshluta sem þeir tilheyra.

Hv. þingmaður spyr hvað ég hefði viljað sjá öðruvísi í endurskipulagningu ríkissjóðs. Það sem ég hefði viljað sjá er að við færum ekki eingöngu í að segja: Heyrðu, þessi stofnun fær þetta og hin stofnunin fær hitt. Ég hefði kosið til dæmis allt menntakerfið eins og það leggur sig, ekki það að við þyrftum að leggja minni fjármuni í það heldur að við skoðuðum hvað við gætum gert betur og hvar við fengjum meira fé. Ég bendi á frumvarp um framhaldsskóla eða samfellt nám til stúdentsprófs, að lækka það um eitt eða tvö ár. Það skilar ríkissjóði á hverju ári 2–3 milljörðum. Það er nú bara eitt verkefni sem við hefðum getað lagst í.

Við hefðum örugglega líka getað skoðað hvort íslensk þjóð, (Forseti hringir.) 320 þús. manns, hafi eitthvað að gera við sjö háskóla. Ég segi nei. Það verður að taka á því.