141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er reyndar þannig að fjárlög undanfarinna ára hafa gengið eftir vel innan við skekkjumörk. Frumjöfnuður var jákvæður í ár eins og stefnt var að, hann verður áfram jákvæður á næsta ári og líklega tvöfalt meira en það sem var í ár og ekkert sem bendir til annars en það verði. Við erum að tala um reksturinn á ríkinu, þ.e. að ná heildarjöfnuði og frumjöfnuði utan þeirra áfalla sem síðan detta í hausinn á okkur með reglulegum hætti. Það hefur að stórum hluta gengið eftir.

Sala á hlutum hvort sem það er í bönkum eða öðru, þar er auðvitað verið að tala um nettóniðurstöðu, þ.e. það er ekki fært til bókar eitthvað sem selt er og skuld er á bak við, það er þá bara jafnað á móti. Við getum ekki verið að eyða þeim peningum sem hafa verið teknir að láni og eru skuldfærðir á móti, það segir sig sjálft, enda er það í sjálfu sér ekki hugmyndin.

Mér fannst hv. þingmaður í upphafi ræðu sinnar varpa fram mikilvægri spurningu sem við ættum kannski oftar að velta fyrir okkur. Hv. þingmaður sagði: Hvaða þjónustu á ríkið að veita yfir höfuð? Mér finnst þetta vera spurning og vangaveltur sem við skiptumst kannski ekki nógu oft og mikið á skoðunum um, því að mér finnst þetta skipta miklu máli. Hvaða þjónustu eigum við að veita? Hvers konar þjónustu eigum við að veita til dæmis í samgöngumálum? Hvaða þjónustu á ríkið að veita í menntamálum, grunnskólunum, framhaldsskólum eða háskólum? Hvernig þjónustu á ríkið að veita í heilbrigðiskerfinu, svo dæmi sé tekið?

Hefur hv. þingmaður einhverjar sérstakar skoðanir á því að við eigum að breyta og þá hverju varðandi þá þjónustu sem fjárlagafrumvarpið felur í sér að ríkið og við eigum að veita í samfélaginu? Telur þingmaðurinn að breyta þurfi þeirri þjónustu á einhvern hátt og þá hvar helst?