141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er afskaplega ánægður með að geta rætt hér áfram um fjárlagafrumvarpið vegna þess að ég á ansi margt órætt.

Í fyrsta lagi má líta á fjárlagafrumvarpið sem eins konar net með mismunandi stóra möskva, þeir þekkja það sem hafa verið á sjó. Sums staðar sleppa lítil síli í gegn, það eru kannski 80 milljónir í þetta og hitt verkefnið og stundum stærri síli, 150 milljónir eða eitthvað svoleiðis, og svo eru það stóru tölurnar.

En, frú forseti, svo er eins og komist hafi í netið háhyrningar eða hákarlar eða ég veit ekki hvað því að risagöt eru á netinu. Þau eru svo stór að menn sjá þau ekki. Menn horfa svo mikið á litlu möskvana sem eru þarna úti um allt að þeir sjá ekki risagötin sem eru á netinu þar sem út streyma gífurlegir fjármunir. Stundum eru þeir teknir með og stundum ekki.

Ég er að tala um ríkisábyrgðir, ég er að tala um Landsvirkjun, ég er að tala um Íbúðalánasjóð, ég er að tala um LSR, A- og B-deild, ég er að tala um Seðlabankann og ég er að tala um Tryggingastofnun. Ég er að tala um þessar stóru tölur, ábyrgð á innstæðum til dæmis, sem menn lýstu yfir að væri ábyrgð á, sem hefur kostað okkur — bíðum nú við, frú forseti. Það er Sjóvá, þar voru einhverjir milljarðar. Síðan var það Sparisjóður Keflavíkur, 20 milljarðar minnir mig, eitthvað svoleiðis, eitthvert smotterí o.s.frv. Þarna eru stóru tölurnar. Svo eru menn að rífast hér um einhverjar 150 milljónir í þetta og hitt sem er bara algjört smáatriði, frú forseti.

Ég ræddi síðast um Landsvirkjun, þá áhættu. Ég velti því fyrir mér hvað gerðist ef hún yrði gjaldþrota. Það er náttúrlega hugsun sem má ekki hugsa á Íslandi, hún er svo fráleit að það er bara eins og var í gamla daga, maður mátti ekki hugsa um að Sambandið færi á hausinn, það var algjörlega óhugsandi. Það fór nú samt á hausinn, frú forseti, ég man ekki betur. Ég vona nú endilega að Landsvirkjun fari ekki á hausinn því að þá er illa komið fyrir ríkissjóði með allar sínar ábyrgðir á skuldunum og beinar skuldir, það eru bæði ríkisábyrgðir og svo eigið fé sem er þar inni upp á 200 milljarða. Menn eru stöðugt að taka einhverja áhættu fyrir hönd skattgreiðenda og því ætla ég að vara menn við.

Ég fór í gegnum Landsvirkjun síðast og gaukaði að mönnum hugsun út fyrir boxið, að menn gætu selt hana aftur og aftur, sem sagt til 40 ára og aftur til 40 ára o.s.frv. Þeir sem vilja glöggva sig á því geta kíkt á ræðu mína og sannfærst um að það getur verið skynsamlegt að selja Landsvirkjun en þó með þeim hætti eins og ég lagði til, ekki endanlega heldur til 40 ára og svo aftur til 40 ára og svo aftur, af því að 40 ár eru nánast eilífð í ævi einstaklinga og fyrirtækja en afskaplega stuttur tími í sögu þjóðar. Við erum búin að vera hér í þúsund ár og 40 ár eru ekki nema pínulítið brot af þeim tíma, 4% af þúsund árum.

Síðan er það LSR, A- og B-deild. Já, ég ætlaði rétt að koma inn á það, frú forseti, þegar rætt var um Íbúðalánasjóð — ég kannski tek Íbúðalánasjóð fyrir fyrst, ég á ekki mikinn tíma eftir. En þegar rætt var um Íbúðalánasjóð á sínum tíma 2004 og breytingarnar varaði ég í þingræðu mjög eindregið við því að taka upp þetta kerfi sem menn tóku upp með föstum vöxtum á útlánunum, þ.e. því sem menn tækju inn, og svo hins vegar með því að vera með lán sem lántakendur gátu greitt upp. Þar var að sjálfsögðu tekin upp heimild til að setja á uppgreiðslugjald en stjórnmálamenn brestur yfirleitt hugrekki til að gera óvinsælar ráðstafanir, þeir láta það heldur bitna á skattgreiðendum, það sést ekki eins greinilega.

Þann 4. nóvember 2004 sagði ég í ræðu, frú forseti, ef ég má lesa:

„Í umsögn fjármálaráðuneytisins er ekki minnst einu orði á þær gífurlegu skuldbindingar sem gætu myndast hjá Íbúðalánasjóði ef vextir í landinu lækkuðu nú almennilega mikið, ef raunvextir færu niður í 2%. Þá væri Íbúðalánasjóður með feiknarlegar skuldbindingar, hundruð milljarða í lánum sem eru með föstum vöxtum sem honum ber að greiða og eru með ríkisábyrgð. Þetta hefur ekki verið rætt og þetta kemur ekki fram í umsögn fjármálaráðuneytisins, en gæti skipt milljörðum eða milljarðatugum ef vextir í landinu lækka, og ég sakna þess í umsögn fjármálaráðuneytisins að sú áhætta er [ekki] til staðar.“

Þetta er einmitt að gerast, vextir eru komnir niður í 2%, þeir voru 2,02% fyrir viku. Hafa reyndar hækkað eftir að þessi umræða fór í gang, og það er einmitt að gerast sem ég varaði við á þeim tíma. Menn tóku þessa áhættu með opin augun, það var bent á þetta. Og til þess var nú þetta uppgreiðslugjald sett. En menn hafa ekki þorað eða haft hugrekki, pólitískt hugrekki, til þess að beita því, að láta menn borga 10% fyrir að greiða upp lánið eða 20%. Menn hafa bara ekki haft pólitískt hugrekki til að gera það og láta heldur skattgreiðandann í landinu borga þetta. Hann er miklu þægilegri, hann liggur betur við höggi af því að hann verður ekki var við það fyrr en eftir á. Það er ekki sagt við hann: Heyrðu, þú þarft að borga 1 milljón fyrir að greiða upp 10 milljóna kr. lán, heldur er sagt við hann: Þú þarft að borga 10 þús. kr. á mánuði í fimm eða sex ár, aukaskatt. Þannig er þetta dulið.

Ræðutíminn er að verða búinn, frú forseti, þetta er allt of stuttur tími, en ég verð þá að biðja um ræðu aftur. Ég lofaði að koma með hugmyndir um lausn á Íbúðalánasjóði. Eitt ráð til að bæta stöðu hans er að hækka vexti í landinu. Það gera menn ekki svo léttilega en það mætti gera með samkomulagi við kröfuhafa um að minnka allan krónustabbann, snjóhengjuna, hér á Íslandi. Þetta eru sennilega um 1.000–1.200 milljarðar sem eru að leita að ávöxtun. Þegar svona miklir peningar leita að ávöxtun þá lækka vextir, það bara segir sig sjálft.

Við sjáum það á Íbúðalánasjóði að vextir eru þar komnir niður í 2% og fóru meira að segja niður í 1%. Við höfum því verið að sjá sögulega lága vexti á Íslandi. Þetta gætum við gert með því að taka þessar krónur út með einhverjum hætti, með því að semja við kröfuhafa um niðurskurð af kröfum þeirra þannig að krónueignin þurrkaðist út. Þá mundu vextir aftur hækka í landinu til hagsbóta fyrir Íbúðalánasjóð, til hagsbóta fyrir skattgreiðendur en að sjálfsögðu ekki til hagsbóta fyrir lántakendur framtíðarinnar, það mundi koma eitthvað niður á þeim. Þetta gætum við gert og ég hugsa að þetta verði á einhvern hátt lausnin því að þetta leysir líka vanda lífeyrissjóðanna sem þurfa 3,5% viðmið til að halda uppi sinni stöðu án þess að þurfa að hækka iðgjöldin stórkostlega — og þá er ég að tala um stórkostlega — eða skerða lífeyri mjög mikið eða hækka ellilífeyrisaldur kannski upp í 70–75 ár, sem er líka ákveðin lausn sem ég er mjög hlynntur, ég hef lagt það til nokkrum sinnum. Þetta væri ein leið.

Önnur leið væri að hætta öllum lánveitingum hjá Íbúðalánasjóði, bara segja: Við ætlum að hætta þessu. Búa til einhvern lítinn og nettan félagslegan sjóð, það má kalla hann Húsnæðisstofnun, frú forseti, það verður tilbreyting og ég er viss um að hæstv. forsætisráðherra mundi gleðjast í hjarta sínu. Kalla hann Húsnæðisstofnun og hafa hann lítinn og nettan, bara fyrir þá sem virkilega þurfa á lánum að halda til að byggja leiguhúsnæði, til að byggja litlar félagslegar íbúðir. Hámarkslánið yrði kannski 20 milljónir og gerðar yrðu miklar kröfur til þess að fólk geti ekki tekið lán á almennum markaði. Hitt yrði allt sett yfir í bankana.

Það er nefnilega þannig að jafnvel hinir ríkustu Íslendingar fá styrk til íbúðakaupa í formi ríkisábyrgðar á lánum. Það lækkar ávöxtunarkröfuna, það lækkar vextina sem þeir greiða og þeir fá ríkisábyrgð, jafnvel fólk sem er með milljón á mánuði í tekjur og miklar eignir. Ég held að það fólk þurfi ekkert á bótum að halda eða slíku.

Ef þetta verður gert, þ.e. að stofna Húsnæðisstofnun sem tæki yfir félagslega hlutann, þá eru kröfuhafarnir látnir taka yfir restina af sjóðnum, látnir taka yfir öll lánin og látið reyna á ríkisábyrgðina o.s.frv. Að sjálfsögðu mundu þeir beita heimild um uppgreiðslugjald vegna þess að þeir eru ekki eins mikið undir hælnum á kjósendum og gætu þess vegna horft framan í lántakendur í stað þess að plata alla og láta skattgreiðendur borga þetta eftir dúk og disk, hugsanlega með því að fela það.

Ég þarf að biðja aftur um ræðutíma, frú forseti, vegna þess að ég komst ekki yfir nema brot af því sem ég ætlaði að tala um.