141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að mörgu leyti ágæta ræðu um fjárlagafrumvarpið. Hann fór reyndar sömuleiðis um víðan völl. Hv. þingmaður nefnir að það hafi mistekist að skapa hagvöxt. Þetta er beinlínis rangt. Það kemur meðal annars fram í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í sumar, og svo endurtekið í haust, að hagvöxtur á Íslandi muni aukast um 2,7%, í 2,5% á næsta ári, en að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum okkar verði á bilinu 0,7%–1,3% á sama tíma.

Hagvöxtur hefur skapast, og hvernig er hann drifinn áfram? Hann er drifinn áfram af fjárfestingu og einkaneyslu; fjárfestingu í sjávarútvegi, fjárfestingu í stóriðju og í stærri atvinnugreinum. Svo segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Sömuleiðis er gert ráð fyrir að önnur fjárfesting aukist talsvert á næsta ári umfram það sem hefur verið.“

Er hv. þingmaður ósammála Hagstofunni um þetta eða er hv. þingmaður að gera athugasemdir við það að hagvöxtur hefði getað verið meiri?

Hv. þingmaður segir sömuleiðis að það hafi mistekist að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Það er líka rangt. Frumjöfnuður á árinu í ár verður 32 milljarðar, rétt tæp 2% af fjárlögum. Miðað við fjárlagafrumvarpið er reiknað með að hann verði 60 milljarðar á næsta ári, þ.e. 3,2% af fjárlögum. Heildarjöfnuður verður á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarpið um 0,1% af fjárlögum, þ.e. miðað við jöfnuð sem er nálægt því að vera 1/100 af þeim halla sem var hér 2009. Er hv. þingmaður ósammála þessu og hvaða rök hefur hv. þingmaður þá fyrir því?

Hv. þingmaður nefnir að aðgerðir stjórnvalda hafi miðað að því að draga úr fjárfestingum í sjávarútvegi. Þó hafa fjárfestingar í sjávarútvegi ekki verið meiri í mörg ár. Til dæmis voru síðasta eina og hálfa árið 30–35 milljarðar í stærri fjárfestingum í sjávarútvegi. Ég óska eftir því að hv. þingmaður útskýri frekar hvað átt er við með fjárfestingum í sjávarútvegi og hvernig hv. þingmaður sér að dregið hafi úr þeim.