141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, fjárfestingar í sjávarútvegi drógust mikið saman. Þannig er það ekki núna, það eru gríðarlegar fjárfestingar í sjávarútvegi, m.a. í innviðum greinarinnar. Ég bendi á að stórar útgerðir á til dæmis Austfjörðum eru að rafvæða verksmiðjur sínar eftir því sem þær geta komist í rafmagn til þess og það eykur hagræðingu í greininni, sparar gjaldeyri við innflutning á olíu til að brenna o.s.frv.

Í Reykjavíkurhöfn mun væntanlega leggjast að stórt og mikið skip sem útgerð í Reykjavík fjárfesti í fyrir skömmu. Væntanlega leggst það að bryggju rétt fyrir jól. Stórt fyrirtæki fyrir norðan keypti annað fyrirtæki upp á 14–15 milljarða. Það er verið að skipta um eigendur í stórum fyrirtækjum, þau ganga kaupum og sölum. Það er gríðarleg hreyfing í sjávarútvegi og gríðarlegar fjárfestingar.

Ég skil afstöðu hv. þingmanns þannig að hagvöxtur og jöfnuður hefði getað orðið betri. Það er svo sem ekki verið að neita því að það hafi getað orðið.

Það var sömuleiðis rætt um aga í ríkisfjármálum og þá vitnað til Evrópu í því. Það er alveg hárrétt, það þarf að auka aga í ríkisfjármálum. Það þarf að sjá lengra fram í tímann og að því hefur verið stefnt. Það vill svo einkennilega til að víða í Evrópu er litið til Íslands hvað þetta varðar, þ.e. eftir þetta mikla efnahagsfall sem varð hérna haustið 2008. Þá er iðulega spurt hvernig við Íslendingar fórum að þessu. Það reiknaði enginn með þessu.

Umræðan um efnahagsmálin hefur oft verið yfirborðskennd og ekki nógu djúp hvað það varðar að draga upp heildarmyndina. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um það, eins og við öll hér inni, að við þurfum að skýra betur langtímamarkmið okkar varðandi skuldsetningu, fjárfestingar, innviðina, þjónustuna sem ríkið á að veita o.s.frv. Við eigum kannski að taka oftar og dýpri umræður um þau mál hér en um einstök atriði fjárlagafrumvarpsins.