141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hagvöxtinn sem hér var til umræðu og þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni. Nú kemur það fram að hugmyndir að baki þessum hagvexti byggja á aukinni einkaneyslu og meðal annars fjárfestingum í sjávarútvegi og iðnaði. Ég velti fyrir mér miðað við áframhaldandi óvissu í þessum helstu atvinnugreinum hverjar líkurnar eru á því að fjárfesting muni aukast að því marki sem nefnt er eða menn ætla sér í þessum fjárlögum. Þetta er í rauninni þvert á það sem við heyrum í símtölum og á vettvangi, t.d. í því kjördæmi sem ég er þingmaður fyrir. Þar fresta því aðilar í sjávarútvegi að fara í tækjakaup og endurnýja tæki vegna þess að sérstaka veiðigjaldið kemur svo harkalega við þá.

Eflaust eru einhverjir sem ætla sér að fjárfesta og þurfa að gera það ef þeir ætla að halda áfram þessum rekstri, en ég velti fyrir mér hvort þetta sé ofmetið, þá af Hagstofunni og þeim sem gera þessar spár. Í það minnsta finnst mér vanta frekari rökstuðning fyrir því.

Mig langar líka að drepa á varnaðarorð aðila vinnumarkaðarins um að þessi fjárlög séu verðbólguhvetjandi, að þau muni hækka hjá okkur lánin og þrengja að landsmönnum. Ég held að við hljótum að þurfa að taka til greina þessi varnaðarorð vegna þess að nóg er bölið hjá heimilum landsins nú þegar. Ég velti fyrir mér í ljósi þess að kjarasamningar eru fram undan og ekki gert ráð fyrir að neitt komi frá ríkisvaldinu inn í þá kjarasamninga miðað við fjárlögin hvort menn fari of bratt.

Það er kannski aðalspurningin.