141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Búið er að fara yfir margt í umræðunni í dag. Ég ætlaði í fyrsta lagi að taka fyrir undirbúninginn og ræða hvaða máli það skiptir að vanda vel til verka því að við erum komin með mörg dæmi um hve slæm áhrif slakur undirbúningur hefur. Það eru auðvitað mýmörg dæmi um slíkt í tíð hæstv. ríkisstjórnar en við sjáum núna þegar þessi ríkisstjórn er að skila af sér sínum síðustu fjárlögum að því miður virðist hún lítið eða ekkert hafa lært af reynslunni og umræðunni sem verið hefur í gangi. Í öðru lagi ætla ég að fara aðeins yfir hækkun skatta og hvaða afleiðingar það hefur. Í þriðja lagi ætla ég að fara yfir í mjög stórt mál sem hægt væri að ræða allan þann tíma sem ég hef, það snýr að nauðasamningunum við gömlu bankana, gjaldeyrishöftum og ýmsu því tengdu.

Við erum búin að tala um það ekki í ár heldur í áratugi hversu mikilvægt er að vanda til lagasetningar. Sú umræða var sérstaklega hávær eftir bankahrunið og töldu menn réttilega að þar hefði ýmislegt betur mátt fara.

En svo virðist sem menn hafi farið í öfuga átt í kjölfar bankahrunsins og með þessari hæstv. ríkisstjórn. Í Morgunblaðinu í dag er til dæmis talað um skatt sem settur var á í miklum ófriði, í miklum flýti og bægslagangi, þ.e. gistináttaskattinn.

Ég ætla að lesa úr frétt Morgunblaðsins um gistináttaskattinn. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Stór hluti gistináttaskatts, sem settur var á um síðustu áramót, skilar sér ekki til ríkissjóðs. Samkvæmt opinberum tölum ber um 50% út af þegar tekið er mið af hótelum og gistiheimilum og öðrum gistiþjónustuaðilum sem einnig eiga að greiða skattinn. Hótelrekandi segir að þeir sem ekki vilji greiða skattinn komist upp með það og gagnrýnir um leið stjórnvöld fyrir að taka ekki á leyfislausum gistiþjónustuaðilum þar sem hægt væri að sækja töluverðar skatttekjur.“

Síðan er sagt að það séu 600 leyfislausir aðilar í Reykjavík og að bara helmingurinn greiði skatta. Ein millifyrirsögn segir: „Þeir greiða bara sem vilja.“ Einhver kynni að segja: Kemur það ekki alveg svakalega mikið á óvart? En það kemur ekkert á óvart, varað var við þessu í umræðunni á þingi. Ég tók það nú sjálfur upp og tók nokkur dæmi um hversu snúið og erfitt þetta væri. Það hefur allt saman gengið eftir. Við sitjum uppi með gistináttaskatt, einn skatt af mörgum. Þeir eru nú yfir 100, ég held að gerðar hafi verið 140 skattalagabreytingar síðan þessi ríkisstjórn tók við.

Við erum því miður á hraðleið í grískt ástand með því að þeir greiði bara skatta sem vilja. Ég er enginn sérfræðingur um Grikkland en því er haldið fram í umræðunni og ég vitna bara í það sem ég sé í erlendum fjölmiðlum þar sem menn fara yfir málin. En hér er fullyrt af þeim sem vel til þekkja að þeir greiði bara gistináttaskatt sem áhuga hafa á því og aðrir sleppi því. Ein ástæðan er sú að þetta er illa gerð skattlagning, illa undirbúin og eftirlitið ófullnægjandi. Það er nákvæmlega það sem gerist þegar undirbúningurinn er slakur.

Maður mundi þá ætla að núverandi valdhafar hefðu lært eitthvað en í haust var hér slengt fram hugmyndum um að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu úr 7% í 25,5%.

Ekki var unnið með hagsmunaaðilum í þessu máli og að baki lágu mjög sérkennilegar hugmyndir um hvernig ástandið væri á þessum markaði. Fyrirhuguð skattahækkun er ekki enn gengin í gildi en hún er þegar farin að hafa áhrif. Komið hefur fram í fjölmiðlum að bókanir fyrir næsta ár eru 15% færri en á þessu ári. Icelandair opinberaði það núna um daginn — 15% færri.

Hvað þýðir það? Það þýðir bara minni tekjur fyrir okkur Íslendinga og bitnar ef til vill á þeim sem síst skyldi. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með sjálfsbjargarviðleitni íslenskrar þjóðar og frábært að sjá hvernig hinir ýmsu aðilar hafa getað skapað sér tekjur og þjónustu og búið til atvinnu í kringum ferðaþjónustu. En þessi hæstv. ríkisstjórn hleypur fram og segir: Nú ætlum við að hækka skattinn upp í 25,5%. Ég held að ekkert land í Evrópu sé með svo háan skatt á ferðaþjónustu ef undan er skilin Danmörk. Það er búið að valda gríðarlegum skaða bara það að setja fram svo illa ígrundaða hugmynd, meðal annars fyrir ríkissjóð því að þessir hagsmunir hanga saman. Almenna reglan er sú að þegar fólk hefur tekjur skila þær sér með beinum eða óbeinum hætti í ríkissjóð. En ríkisstjórnin hefur ýtt frá sér tekjum með illa ígrunduðum hugmyndum um skattahækkanir. Nú ætla menn að lækka hækkunina á einhverjum hlaupum en hækka skattinn. Hugmyndin gengur út á það að hafa 14% virðisaukaskatt í stað 7%.

Síðan á að fara fram með hækkun á almennu tryggingagjaldi, sérstaka hækkun á tóbaksgjaldi og almennur fjársýsluskattur á sömuleiðis að hækka. Setja á vörugjald á bílaleigubíla og síðan ætla menn að sjá bætt skattskil. Búið er að dreifa því hér en ekki er búið að ræða neitt. Í dag er 3. desember og samkvæmt áætlun stjórnarmeirihlutans á að klára fjárlögin á miðvikudaginn. Ég nefni það fyrir þá sem eru að fylgjast með umræðunni svo menn átti sig á mikilvægi þess að undirbúa hlutina vel.

Ríkisstjórnin er búin að vera við völd í fjögur ár. Hún hefur haft allan tíma í heiminum til að undirbúa skattbreytingar og það er gert á elleftu stundu. Bara framsetningin, sem nú er búið að draga í land með, hefur valdið gríðarlegum skaða því að 15% fækkun á bókunum er mikill skaði.

Síðan eru menn með hugmyndir um hækkun á hinum ýmsu sköttum og ég vek athygli á því að við stjórnarandstöðuþingmenn lásum bara um þetta í blöðunum fyrir einum, tveimur dögum eins og aðrir landsmenn. Sú nefnd sem fjalla á um þessi mál hefur ekki fjallað um þetta og ég veit ekki hvernig við eigum að komast yfir það að kanna afleiðingar þessara skattahækkana á nokkrum dögum. Það á ekki bara hækka þá skatta sem ég nefndi, heldur ætla menn líka að hækka vörugjald. Til að setja hlutina í betri búning tala menn um sykurskatta og svo sannarlega eru þetta sykurskattar; vörugjöld á sykur eru hækkuð. Til að gera það þurfa menn að bæta við tölvukerfum og mannafla, bara til að halda utan um þessar skattalagabreytingar. Það verða þá 35 millj. kr. á næsta ári, sem er ansi mikið þegar við erum að tala um 800 millj. kr. skattahækkun.

Fyrsta hugsun mín þegar ég heyrði um þessa skattahækkun var: Hvaða áhrif hefur hún fyrir verðtryggðu lánin í þessu landi? Ég sendi inn fyrirspurn um daginn um það, ég vildi fá að vita hvaða afleiðingar allar þessar skatta- og gjaldahækkanir hefðu haft fyrir verðtryggð lán landsmanna? Við erum í þeirri sérstöku stöðu, og það eru ekki margar þjóðir þar, bara einstaka þjóðir í Suður-Ameríku, að vera með verðtryggð lán á neytendalánum heimila. Verðtryggð lán eru til víðs vegar um heiminn en þau eru alla jafna ekki tekin fyrir heimilin. Almenna reglan er sú að verðbólga er hófleg í þeim löndum sem við berum okkur saman við, til þess að lækka skuldirnar. Það er gríðarlegur skuldavandi í þeim heimshluta sem við berum okkur saman við, í hinum vestrænu ríkjum. En vegna þess að við erum með verðtryggð lán fyrir heimilin hafa allar þessar æfingar bein áhrif á lán heimila. Við erum búin að vera í þeirri stöðu allt kjörtímabilið að það hefur reynst illmögulegt og ekki á færi þessarar ríkisstjórnar að koma með neinar þær aðgerðir sem skipt hafa verulegu máli fyrir venjulegar fjölskyldur í landinu þegar kemur að skuldamálum, þrátt fyrir loforð um velferðarbrú og hvað það hét allt saman, fyrir síðustu alþingiskosningar. Nú á lokadögum stjórnarinnar er hent hér inn skattahækkunum, gjaldahækkunum sem fara munu beint inn í lánin. Hversu mikið? Veit það einhver? Er einhver stjórnarliði hér inni sem getur sagt frá því? Ég hvet þá viðkomandi stjórnarliða til að gefa sig fram og útskýra fyrir fólkinu í landinu hvaða afleiðingar gjaldahækkanirnar munu hafa á lán almennings. Ég tel að fólk eigi rétt á að fá að vita það.

Mér fyndist það sérstakt, einkum í ljósi þess að menn vinna þessa hluti á handahlaupum og um leið er verið að dreifa hér skýrslu, virðulegi forseti. Og hvað heitir skýrslan? Hún heitir: Skýrsla forsætisráðherra um vandaða lagasetningu, áhrif laga um opinberar eftirlitsreglur og störf ráðgjafarnefndar 2006–2011.

Virðulegi forseti. Um vandaða lagasetningu? Ég er aðeins búinn að blaða í skýrslunni og ég velti fyrir mér hvort þetta sé svartur húmor hjá hæstv. forsætisráðherra að dreifa skýrslunni um leið og stjórnarliðar eru hér á handahlaupum við að samþykkja eitthvað. Ef ég þekki hv. stjórnarliða rétt munu þeir á endanum skila sér og samþykkja eitthvað sem þeir vita ekki hvað hefur í för með sér.

Ég fullyrði að stjórnarliðar vita það ekki. Af hverju ekki? Vegna þess að það hefur ekkert verið skoðað. Þannig er það, virðulegi forseti. Ég er að hugsa um heimilin því að mér er mjög umhugað um þau. Ég hef fundið fyrir því á undanförnum vikum þar sem ég hef verið í miklum samskiptum við fólk að það á um mjög sárt að binda. Það er mjög erfitt hjá fólki og það er alveg ljóst að fólk sér ekki ljósið hjá þessari ríkisstjórn af góðri ástæðu. Þess vegna veldur það mér alveg gríðarlegum vonbrigðum að sjá hér eldgömul vinnubrögð sem ganga út á að henda inn á elleftu stundu hlutum eins og þessum í von um að þeir detti inn í umræðuna fyrir jólin og fari ekki á neitt flug vegna þess að þjóðin sé farin að hugsa um eitthvað allt annað.

Við ættum að fara yfir hvaða afleiðingar þessar gjaldabreytingar, skattahækkanir hafa á ríkissjóð en ekki síður á heimilin því að það eru nú þau sem halda ríkissjóði uppi. Ég nefndi hérna gistináttaskattinn, bara það sem stóð í Morgunblaðinu í dag. Það er hægt að taka mýmörg dæmi, en gistináttaskatturinn sem fjallað var um í dag er skýrt dæmi um óvandaða lagasetningu. Maður mundi ætla að það væri kannski nóg að hafa gistináttaskattinn sem óvandaða lagasetningu og skattlagningu á ferðaþjónustuna, en nei, hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera enn betur, ef þannig má að orði komast, og bætir á vanhugsuðum virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem hefur nú þegar gert það að verkum að ríkissjóður verður af verulegum fjármunum. Skatturinn hefur líka leitt til þess, og það hangir allt saman, að fólk sem annars hefði atvinnu af þessu hefur það ekki lengur.

Ég nefndi að undirbúningi væri ábótavant, svo ég orði það nú hóflega — ábótavant. Það er augljóst að menn vinna hér á elleftu stundu eða þá hafa þeir setið með þessar hugmyndir mjög lengi og ekki þorað að koma fram þær fyrr en núna, hvor sem ástæðan er þá eru báðar jafnslæmar.

En síðan erum við líka með risamál sem koma inn á elleftu stundu. Íbúðalánasjóður er risamál. Ég er búinn að spyrjast fyrir um Íbúðalánasjóð allt kjörtímabilið og ég hvet menn til að skoða svör hæstv. velferðarráðherra við þeim spurningum sem ég hef borið fram, bæði í sérstökum umræðum og í fyrirspurnum. Ég hef haft áhyggjur af Íbúðalánasjóði eins og flestir sem eitthvað hafa kynnt sér þau mál. En núna, eftir allan þennan tíma, eftir fjögur ár, kemur hæstv. ríkisstjórn á elleftu stundu fram með einhvers konar aðgerðir sem ekkert er búið að ræða eða skoða — á elleftu stundu.

Síðan er annað. Ein stærsta framkvæmd í sögu Íslands, hvorki meira né minna, er spítali fyrir þjóðina. Er eitthvað búið að kynna það sem snýr að nýjum spítala á hv. Alþingi? Svarið er nei. Það hefur ekkert verið kynnt. Nú er 3. desember. Þeir ætla að klára fjárlögin á miðvikudaginn og það er ekkert búið að kynna þetta. Við sem erum með aðgang að fjölmiðlum sáum að búið er að breyta algjörlega um kúrs ef marka má fréttir. Nú á að fara í ríkisframkvæmd í stað þess að fara í einkaframkvæmd eins og fyrrverandi hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar, hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson og hæstv. ráðherra Álfheiður Ingadóttir, höfðu ákveðið að fara í. Hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson ætlar augljóslega að breyta um kúrs og fara úr einkaframkvæmd yfir í ríkisframkvæmd. Það hefur ekkert verið kynnt fyrir hv. Alþingi, ekki neitt.

Svo koma menn og gagnrýna að hv. þingmenn veki athygli á því. Samkvæmt stjórnarskránni eiga hv. þingmenn að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Hvað má segja um þann hv. þingmann sem horfir á þessi vinnubrögð og segir ekkert? Má ekki snúa dæminu við og segja: Hvar eru hv. stjórnarliðar?

Virðulegi forseti. Finnst hv. stjórnarþingmönnum þessi vinnubrögð virkilega vera í lagi? Ef svo er fer ég fram á að þeir komi hér og gangist við því og útskýri fyrir þjóðinni hvers vegna þeim finnst þessi vinnubrögð vera í lagi. Ég fullyrði (Forseti hringir.) að þeir eru algerlega einir um að finnast það.