141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, sem ég get svo sem verið sammála, er að menn þurfi að horfa lengra inn í framtíðina en bara eitt ár. Við vitum hvernig fjárlögin hafa verið á undanförnum árum, að það er alltaf dulinn halli á þeim og niðurstaða ríkisreiknings er ekki í samræmi við fjárlög eða fjáraukalög meira að segja þegar búið er að endurskoða þau í desember á því fjárlagaári sem þá stendur yfir.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, sérstaklega í ljósi þess að þessi fjárfestingaráætlun sem boðuð er af hálfu hæstv. ríkisstjórnar upp á 5,5 milljarða plús þessar 600 millj. kr. í 6. greinar heimildinni til að fara í grænkun fyrirtækja. Því vil ég spyrja hv þingmann hvort það þurfi í raun og veru ekki að setja bara strangar fjármálareglur til að ná tökum á skuldavanda ríkissjóðs. Við sjáum auðvitað hvernig vaxtagjöldin eru að þróast. Næsta ár verða þau 84 milljarðar. Þau aukast um tæpa 20 milljarða á tveimur árum vaxtajöfnuðurinn þannig að það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að ná tökum á ríkisfjármálunum.

Og þegar stjórnvöld kynna svokallaða fjárfestingaráætlun gera þau það á síðustu vikum kjörtímabilsins. Þegar stjórnvöld ætla að skreyta sig með því að taka skóflustungur hingað og þangað eiga aðrir að sjá um framhaldið, annaðhvort að með því að slá vitleysuna af, ef það er hægt, eða þá að framkvæma. Skýrt dæmi um það er svokölluð náttúruminjasýning sem setja á upp í Perlunni fyrir 500 millj. kr. Aðgangseyririnn á að greiða fyrir það en á sama tíma eru á fjárlögum settar 400 millj. kr. til viðbótar inn í rekstur Hörpu vegna þess að hann stendur ekki undir sér.

Telur hv. þingmaður það ekki vera mikilvægasta verkefnið núna að menn setji sér ákveðinn fjárlagaramma um það hver afgangur þurfi að vera í ríkisfjármálunum til að hægt sé að greiða niður skuldir til að ná tökum á fjárlagahalla ríkisins?