141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hvergi hægt að sjá í fjárlagafrumvarpinu hvaða fjármunir eru veittir til Evrópusambandsumsóknarinnar. Þetta er inni í öllum ráðuneytum. Það er ekkert haldið utan um þetta og þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar eru spurðir út í kostnaðinn við Evrópusambandsaðlögunarferlið þá svara menn því yfirleitt með einhverjum útúrsnúningi. Við vitum að inni í hinum ýmsu stofnunum, undirstofnunum einstakra ráðuneyta, er allt á kafi í þessari vinnu. Það þarf enginn að segja manni, eins og ég kom inn á áðan og kemur fram í breytingartillögunum, að tollstjóraembættið, Fjármálaeftirlitið og fleiri sem þiggja styrki í þeim tilgangi að aðlaga sína starfsemi að Evrópusambandinu, Seðlabankinn, að einhverjir fjármunir séu ekki veittir í það inni í stofnununum sjálfum, starfskrafti og öðru slíku. Utanríkisráðherra hefur talað um að það sé nú ekki svo mikil vinna vegna þess að menn notist við starfsfólk sem fyrir sé. Því starfsfólki væri væntanlega ofaukið ef við værum ekki í þessum aðildarviðræðum og væri hægt að spara þá fjármuni.

Hvergi er hægt að sjá hvaða fjármunir eru veittir í Evrópusambandsumsóknina. Það hefur verið gagnrýnt mjög mikið og því miður virðist fjárlaganefnd ekki hafa manndóm eða dug í sér til að taka á því og upplýsa þingið um hvað verið er að tala um.

Þegar kemur að IPA-styrkjunum er það dálítið sérstakt að þeir eru eingöngu veittir til ríkja sem eru í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, bæði til aðlögunarverkefna og eins verkefna til að bæta ímynd sambandsins víðs vegar um land. Frú forseti, ég lagði fram tillögu á sínum tíma um að þeim fjármunum yrði beint til Grikklands og ríkja í Suður-Evrópu. Það hefði sparað íslenskum ríkissjóði (Forseti hringir.) mótframlagið og þá hefðum við getað látið gott af okkur leiða.