141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu um fjárlagafrumvarpið hér áðan. Það eru ákveðin atriði sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í eða beina orðum mínum til hans. Í fyrsta lagi varðandi niðurgreiðslu á húshitun sem lagt er til í frumvarpinu að verði ráðist í í áföngum, þ.e. fyrsti áfanginn á næsta ári með 175 millj. kr., ætli það sé ekki um það bil þriðjungurinn af því sem þarf til að mæta því sem þarna er. Mér fannst hv. þingmaður taka hálfilla í þetta en vonast til þess að hann styðji þessa tillögu og styðji tillögu meiri hlutans um að ráðast í þetta á næsta ári þó að aðferðin verði ekki sú sama í upphafi, eins og lagt er til í skýrslunni sem vitnað er til, heldur komi framlag úr ríkissjóði. Hv. þingmaður getur svo komið með breytingartillögu. Þetta verður þá fjármagnað með því að hækka raforkugjaldið ef mönnum hugnast að gera það að þessu sinni. Ég hvet samt sem áður hv. þingmann til að styðja þetta mál.

Hv. þingmaður nefndi framkvæmdir við sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Ég vona að mér hafi misheyrst að hv. þingmaður muni leggjast gegn þeim tillögum. Ég náði ekki alveg samhenginu í því sem hann var að tala um varðandi einhverjar framkvæmdir á sjúkrahúsi á Akranesi. Ég ætla sömuleiðis að vonast til að ég eigi stuðning hv. þingmanns í þeim framkvæmdum sem standa fyrir dyrum í Stykkishólmi hvað varðar sjúkrahúsið þar því að það er rangt sem fram hefur komið í ræðum nokkurra þingmanna hér í dag og á undanförnum dögum, þar á meðal í máli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Það er ekki niðurskurður í heilbrigðiskerfinu í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Það er ekki um niðurskurð að ræða, það er 0% aðhald á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum og breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir viðbót. Það verður því ekki niðurskurður heldur þveröfugt.