141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður ætlar í það minnsta að styðja ágætar tillögur meiri hlutans hvað þessi tvö atriði varðar.

Varðandi jöfnunarsjóðinn er lagt af stað með niðurgreiðslu úr ríkissjóði. Það er ekki stefnt að því að sveitarfélögin þurfi að koma á hverju ári með betlistaf heldur er þetta fyrsti áfanginn með framlagi til jöfnunarsjóðs. Þetta er ekki tímabundið framlag heldur varanlegt og fyrsta skrefið í þá átt en hækkun á raforkugjaldi mun á endanum taka við þegar fært verður. Svo er auðvitað hægt að gera breytingartillögu við afgreiðslu 2. umr. um að farin verði önnur leið, niðurgreiðslurnar komi ekki beint úr ríkissjóði heldur verði lögð til hækkun á raforkugjaldinu, og þá ræðum við það bara.

Varðandi jöfnunarsjóðinn finnst mér rétt að það komi fram að á yfirstandandi kjörtímabili hafa verið lagðir í hann ríflega 3 milljarðar kr. sem er sérstakt framlag úr ríkissjóði. Það hefur verið gert gríðarlegt átak með yfir 3 milljörðum í jöfnunarsjóð til sérstakra aðgerða til hjálpar illa settum sveitarfélögum. Þar fyrir utan er jöfnunarsjóður auðvitað fjármagnaður að stærstum hluta af skatttekjum, 2,12% af skatttekjum ríkisins, auk þess sem hann er fjármagnaður með ríflega 0,2%, ef ég man rétt, af útsvarstekjum næstliðins árs. Þetta þýðir með öðrum orðum að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur notið þeirra tekjuöflunaraðgerða sem ríkið hefur lagt í og Alþingi á undanförnum árum. Á meðan lamið hefur verið á okkur hér, m.a. af hv. þingmanni, fyrir að auka tekjur ríkissjóðs hefur jöfnunarsjóður fengið gríðarlega háar upphæðir út úr þeim aðgerðum og eflst meðal annars út af því.

Íbúðalánasjóður, til að frumvarpið líti vel út, var pínu skrýtið upplegg því að á endanum eru það lögin sem ráða en ekki frumvarpið sem er lagt fram. Það hefur engin tilraun verið gerð til þess að fela vanda Íbúðalánasjóðs. Við höfum tekið á honum ítarlega og margsinnis (Forseti hringir.) á þessu kjörtímabili með tuga milljarða kr. framlagi. Nú er komin niðurstaða í þá vinnu sem lagt var upp með til að greina þennan vanda til framtíðar og mun það mál koma við 3. umr.