141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma upp í andsvar við mig en ég er honum ósammála að mörgu leyti. Það er mjög einfalt að lesa það út úr þeim gögnum sem við getum nálgast hér á þinginu — t.d. skýrsluna Nauðsyn eða val? Verðtrygging, vextir og verðbólga, sem unnin er af þeim Ásgeiri Jónssyni, Sigurði Jóhannessyni og Valdimar Ármann — að það hafi einmitt verið eftir að bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn að þá í upphafi tóku þeir til sín nokkuð stóran hluta af markaðnum en viðbrögð Íbúðalánasjóðs voru þau að blása til stórsóknar til að ná aftur til sín þessum markaði.

Telur formaður Framsóknarflokksins það vera rétta stefnu að ríkið sé með sjóð sem nýtur ríkisábyrgðar í fullri og harðri samkeppni við einkabanka á markaði um fasteignalán? Telur formaður Framsóknarflokksins ekki rétt að endurskoða þá stefnu? Er það ekki þannig að upphaflegt markmið og hlutverk Íbúðalánasjóðs hafi verið það að vera félagslegur sjóður til að aðstoða þá sem ekki gátu fengið fjármögnun annars staðar frá til þess að eignast húsnæði? Telur formaður Framsóknarflokksins það rétt að skattgreiðendur niðurgreiði íbúðarkaup fullfrísks vinnandi fólks?