141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði alls ekki að ræða hv. þingmanns hefði verið ómálefnaleg, mér fannst hún bara vond. Ég vil benda hv. þingmanni á að árið 2006 var staðan sú að Íbúðalánasjóður hækkaði hámarkslán sín úr 17,7 millj. kr. í 20 millj. kr., 90% lán. Hvað gerðu þá bankarnir? Þeir fóru í 100%. 100% og ekkert þak á hvað mátti taka mikið að láni. Þetta er nú bara heimurinn sem var, ef ég má orða það þannig.

Íbúðalánasjóði var gert að fjármagna sig á markaði. Vegna þess hlaut hann að þurfa að grípa til einhverra aðgerða til að standa undir þeim lögum og kröfum sem á hann voru gerðar. Að sjálfsögðu. Og hvað gerði hann? Hann gerði þó ekki nema þetta. Og það er nú ekki stórsókn af hálfu opinbers sjóðs, að setja þak í 20 millj. kr. á sínar lánveitingar og lána eingöngu 90% þegar þú gast svo farið í bankann og fengið 10 eða 20% í viðbót við þessi 90%. Þannig að það er nú mjög undarlegt að halda þessu fram.

Íbúðalánasjóður hefur klárlega félagslegt hlutverk og á að hafa. Það er búið að reyna verkamannakerfið sem fór á hausinn. Það er búið að reyna Jóhönnulánin svokölluðu, þau settu heimilin nærri því á hausinn út af afföllum sem voru (Gripið fram í: Gerðu þau það?) þannig að hvað gerum við nú? Við erum áfram með Íbúðalánasjóð og við reynum þá að stilla hann af þannig að þessi hluti hans verði í lagi. En við hljótum að þurfa að vera líka með kerfi á vegum ríkisins sem tryggir að allir þegnar landsins geti fengið lán til að kaupa íbúðarhúsnæði án þess að það sé endilega félagslegt húsnæði. Getum við sett lög sem tryggja að bankarnir láni til húsnæðiskaupa á Hofsósi eða Siglufirði, eða einhvers staðar annars staðar? Ég er ekki viss um að við getum sett þannig lög. Þannig að tilveruréttur og nauðsyn Íbúðalánasjóðs hefur sannað sig svo að um munar, ekki síst eftir að bankarnir hrundu út af óvarlegri starfsemi sinni eða hvernig á nú að orða það.

Hvað er ríkið búið að gera? Ríkið hefur undanfarið þurft að setja 350–400 milljarða inn í alls konar fjármálafyrirtæki eða bix sem var farið á hausinn, hvort sem það eru sparisjóðir, bankar, Sjóvá eða (Forseti hringir.) hvað annað. Þetta eru því ekki miklir peningar sem verið er að setja í Íbúðalánasjóð til að viðhalda góðu kerfi.