141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er hv. þingmaður að halda því fram að þetta kerfi sé fullkomið og að ekki þurfi að gera á því neinar breytingar? (GBS: Alls ekki fullkomið. Mjög gott.) — Sumt vont. Allt í lagi, ræðan mín var örugglega vond fyrir hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson að hlýða á. En sumt vont er gott vont. Maður þarf bara stundum að fá að heyra sannleikann til að maður geti horfst í augu við það sem maður þarf að takast á við. Þannig er þetta varðandi Íbúðalánasjóð.

Við verðum að taka hér umræðu um það hvernig við ætlum að viðhafa ríkisábyrgðir í lánaviðskiptum á fasteignamarkaði. Ég tel að það eigi að vera meginreglan hjá okkur að ríkið sé ekki í slíkum ábyrgðum. Að stærstur hluti fasteignalána eigi ekki að vera með slíkum ábyrgðum. En við erum sammála um það, ég og þeir hv. þingmenn sem tekið hafa til máls og andmælt ræðu minni, að félagslegt úrræði eigi að vera til og að mínu viti ætti að vera aðalhlutverk og eina hlutverk Íbúðalánasjóðs. Þar gætu verið ríkisábyrgðir. Þær þyrftu að vera skilgreindar, ljóst hvert hlutverk þeirra eigi að vera þannig að ekki sé hægt að hlaupa einfaldlega fram þegar samkeppnisaðili kemur inn á markaðinn og blása til stórsóknar til að halda markaðshlutdeild sinni á markaðnum. Þannig á þetta ekki að vera.

Við þurfum að skilgreina hlutverk sjóðsins betur. Að mínu viti á það að afmarkast af félagslegum þáttum. Ef menn telja að hér séu einhverjir hagrænir þættir sem þurfi að koma til skoðunar og gefi það til kynna að réttlætanlegt sé að vera með ríkisábyrgð á þessum lánum þá þurfa þær reglur að þola opinbera skoðun, að minnsta kosti opinbera umræðu í þessum þingsal, þó að það sé vont.