141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:33]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér í fyrstu ræðu mína um fjárlagafrumvarpið, þ.e. fyrstu ræðu í 2. umr., og ætla að byrja á því að tala um forsendur þessa fjárlagafrumvarps.

Efnahagsforsendurnar sem gengið er út frá í þessu frumvarpi tel ég að séu afar hæpnar. Hagvaxtarforsendurnar hvíla á mjög óvissum forsendum og er hæpið að þær muni standast miðað við hvernig hlutirnir eru að þróast, bæði í heiminum og hér á Íslandi. Þar af leiðandi munu tekjur ríkissjóðs að öllum líkindum verða minni en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og gjöldin meiri, vegna þess að ekki mun rætast jafn vel úr atvinnuástandinu og gert er ráð fyrir.

Ef við lítum á spár um hagvöxt á næsta ári þá spáir Seðlabankinn þann 14. nóvember 2,9%, spá Hagstofunnar frá 2. nóvember er 2,5% og hagspá ASÍ sem var gerð í október gerir ráð fyrir 2,5%.

Þessar spár tel ég ekki gera ráð fyrir því hvað alþjóðahorfur hafa versnað og hvað þær munu leiða til verri horfa hvað varðar útflutning. Við sjáum að það eru þegar orðin vandamál með helstu útflutningsafurð okkar sem er fiskur, það er til dæmis talið að verð á þorski lækki um allt að 20–25% frá því sem var á síðasta ári. Jafnframt er líklegt að áhrif af auknum veiðum í Barentshafi muni verða mikil.

Þá er ekki ólíklegt að það muni slá á vöxtinn hjá ferðamannaiðnaðinum, sem hefur verið í miklum blóma undanfarin ár. Gjaldeyristekjur af þessum mikilvæga geira muni jafnvel standa í stað á næsta ári vegna þess hvað alþjóðahorfur versna hratt, þ.e. tekjur dragast saman eða standa í stað, bæði hér fyrir vestan okkur og í Evrópu. Það mun leiða til þess að ráðstöfunartekjur fólks í Evrópu, Bandaríkjunum og á fleiri stöðum munu dragast saman eða standa í stað sem leiðir til þess að fólk leggst síður í ferðalög en áður.

Það er eitt sem ég ætla að gera að umtalsefni, hagvöxtur. Það hafa verið mjög miklar meiningar um það hvaðan hagvöxturinn til dæmis á þessu ári er sprottinn. Þess vegna held ég að sé ágætt að fjalla um undirliði landsframleiðslunnar og útskýra nákvæmlega hvað við er átt.

Landsframleiðsla stendur saman af þremur þáttum; það er einkaneysla, það er fjárfesting og það eru ríkisútgjöld. Síðan er viðskiptajöfnuðurinn. Hann dregst frá ef hann er neikvæður eða bætist við ef hann er jákvæður. Á þennan hátt er mjög auðvelt að rekja hvaðan hagvöxturinn er sprottinn.

Við vitum að fjárfesting er í sögulegu lágmarki, hún er einungis í kringum 15% af landsframleiðslu. Þessi lága fjárfesting stafar af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi hefur byggingariðnaðurinn haldið að sér höndum vegna þess að ráðstöfunartekjur hafa ekki vaxið nægjanlega til þess að fólk sé tilbúið að fjárfesta í nýju íbúðarhúsnæði að því marki sem var áður. Það er ekki verið að byggja iðnaðarhúsnæði og verslunarhúsnæði. Ef við skoðum til dæmis fjárfestingar í orkufrekum mannvirkjum hafa þær verið í lágmarki. Það hefur verið vegna stjórnarstefnunnar, fyrst og fremst því að ekki hefur mátt virkja og ekki hefur verið hægt að selja orkuna því að það eru ekki neinir til að kaupa hana. Það er einfaldlega vegna þess að fjárfestar í orkufrekum iðnaði eru ekki velkomnir á Íslandi í dag.

Fjárfesting í sjávarútvegi tók reyndar kipp fyrr á þessu ári, en það lítur illa út með næsta ár og næstu ár. Það má einnig rekja til stjórnvaldsákvarðana, til veiðigjaldanna svokölluðu.

Þann 1. desember fengu sjávarútvegsfyrirtækin greiðsluseðil fyrir veiðigjöldunum. Ég held að sé ágætt að taka eitt fyrirtæki sem dæmi, Rammann í Fjallabyggð. Reikningurinn sem Ramminn fékk var rúmlega 500 millj. kr. Þessar 500 milljónir verða ekki notaðar til að fjárfesta. Á næsta ári þegar reglurnar um veiðigjöldin fara að skila sér enn betur er áætlað að það fyrirtæki muni borga 700 millj. kr. miðað við óbreyttar forsendur og þegar veiðigjaldið kemur inn að fullu eftir þrjú ár reiknast forráðamönnum fyrirtækisins til að þeir muni borga 900 millj. kr. í veiðigjöld miðað við sambærilegar forsendur. Fyrirtækið hefur efni á að borga vexti af lánum sínum á þessu ári, en það hefur ekki efni á afborgunum þannig að það þarf að framlengja afborganirnar. Síðan sígur á ógæfuhliðina á næsta ári og þarnæsta ári þegar fyrirtækið á ekki lengur fyrir vöxtum. Miðað við þau lög um veiðigjöld sem nú er farið eftir mun fyrirtækið fara á höfuðið á næstu fimm árum. Þá verður grunnatvinnuvegum samfélagsins í Fjallabyggð kippt undan byggðarlaginu og væntanlega bætist við í kostnað fyrir ríkið, auk þess sem tekjurnar hverfa.

Þannig að sjávarútvegur er ekki að fjárfesta að neinu marki í dag, enda sjáum við það t.d. á skipastólnum að við Íslendingar erum með skip sem eru gömul, mörg hver úr sér gengin og það vantar sárlega að endurnýja skipastólinn. Þetta má allt saman rekja til þessara stjórnvaldsákvarðana sem ég rakti hérna, til veiðigjaldsins svokallaða.

Jafnframt er merkilegt að velta fyrir sér greiningu sem alþjóðlega greiningarfyrirtækið Aon gerði fyrir nokkru þar sem farið var yfir pólitíska áhættu á Íslandi. Pólitísk áhætta er versti óvinur fjárfestisins ef mikið er verið að hringla í sköttum eða verið er að hækka skatta snögglega og annað slíkt. Ef verið er að svíkja gerða samninga eins og þó nokkuð er um núna, ef ekki er hægt að sjá fyrir aðgerðir stjórnvalds á hverjum stað, þá fá þau lönd sem þannig er ástatt fyrir lélega einkunn á kvarða þessa matsfyrirtækis. Fyrirtækið metur pólitíska áhættu í löndum heims. Þegar Ísland er skoðað kemur sú merkilega staðreynd í ljós að pólitísk áhætta á Íslandi er metin vera sambærileg og er í Kína, Rússlandi, Indónesíu, Kólumbíu og löndum norðanverðrar Afríku, svo einhver lönd séu nefnd, lönd sem við höfum ekki oft verið borin saman við, en sem hugurinn hvarflar stöðugt meira til þegar hugsað er um stjórnarathafnirnar.

Þetta er staðreynd sem ekki er byggð á einhverjum pólitískum forsendum þessa fyrirtækis, þetta eru einfaldlega hlutlægir mælikvarðar sem eru notaðir og ályktað út frá þeim.

Ég er búinn að tala um einn liðinn í landsframleiðslu sem er fjárfesting. Þetta sem ég hef rakið hér eru skýringar á af hverju ekki er fjárfest meira á Íslandi en raun ber vitni og af hverju fjárfesting er í lágmarki ef litið er til lýðveldistímans.

Þar næst getum við litið til einkaneyslunnar, vegna þess að eins og ég sagði áðan er landsframleiðslan samsett úr einkaneyslu, fjárfestingu, ríkisútgjöldum og viðskiptajöfnuði.

Ef við lítum til einkaneyslunnar hefur hún hækkað nokkuð og verið fjármögnuð með séreignarsparnaði. Hún hefur verið fjármögnuð með vaxtabótum frá hinu opinbera, frá ríkinu. Vaxtabæturnar eru notaðar í einkaneyslu og að einhverju leyti í að borga niður skuldir. Séreignarsparnaðurinn hefur verið notaður í einkaneyslu og til að borga niður skuldir. Síðan eru þættir eins og að gengislánin voru dæmd ólögleg, þeir hafa áhrif líka.

Þannig að vissulega hefur einkaneysla aukist, en hún hefur ekki aukist vegna þess að laun hafi hækkað, heldur hefur verið gengið á sparnað, bæði lífeyrissparnað og sparnað í bankakerfinu, þ.e. einkasparnað. Síðan hafa útgjöld ríkissjóðs verið færð beint til fólks gegnum vaxtabætur og bætur. Þetta hefur leitt til þess að einkaneyslan hefur aukist, eins og ég segi, vegna þess að það hefur verið gengið á stofninn, ekki vegna þess að það hafi orðið til meiri framleiðsla og hærri laun sem leitt hafa til hærri einkaneyslu. Hér erum við komin með skýringuna á því að einkaneysla hefur hækkað.

Þá er einn liður eftir af þessum þrem grunnliðum, það eru ríkisútgjöld. Ríkisútgjöld hafa hækkað, ekki mikið en þau hafa samt hækkað, sem hefur gerst vegna alls konar liða. Það hafa bæði verið aukin ríkisútgjöld til ýmissa þátta í samneyslunni, en einnig hafa tilfærslur verið auknar. Fyrir utan það reiknast atvinnuleysisbætur og annað slíkt inn. Þessi liður hefur því hækkað nokkuð.

Síðan kemur að viðskiptajöfnuði. Vegna þess að gengið féll eins og það gerði hefur eftirspurn eftir innflutningi minnkað, þ.e. þegar innflutningurinn verður dýrari dregur fólk saman neyslu á innfluttum vörum og skiptir yfir í innlendar vörur o.s.frv. Innflutningur hefur líka minnkað vegna þess að lítið hefur verið flutt inn af vörum sem tengdar eru erlenda hluta fjárfestingarinnar, þ.e. vélar, tæki, efni til húsbygginga o.s.frv. Útflutningurinn hefur aftur á móti aukist mjög mikið. Útflutningurinn hefur aukist vegna þess að það hefur verið mjög gott árferði í sjávarútvegi vegna makrílveiða, eða uppsjávarveiða almennt getum við sagt, en nú horfir ekki eins vel í þeim geira og hefur gert undanfarin ár.

Landsframleiðslan, sem er samsett úr einkaneyslu, fjárfestingu, ríkisútgjöldum og viðskiptajöfnuði, hefur hækkað vegna þess að hún er drifin áfram af einkaneyslu annars vegar og af miklum útflutningi hins vegar. Einkaneyslan er drifin áfram af því að fólk hefur gengið á sparnað sinn, einkasparnað í bönkum og á lífeyrissparnað vegna úttekta á séreignarsparnaði, og í gegnum vaxtabætur.

Við sjáum það að hagvöxtur er einfaldlega aukning á landsframleiðslu milli ára, það er ekkert flóknara. Aukning á þessum stærðum sem ég hef gert hér að umtalsefni, einkaneyslu, fjárfestingu, ríkisútgjöldum og viðskiptajöfnuði. Þannig að hagvöxturinn sem við höfum sé hefur annars vegar verið drifinn af einkaneyslunni, eitthvað af ríkisútgjöldum, ekkert af fjárfestingu og af góðum útflutningi, tekjum af ferðamönnum og tekjum af sjávarútvegsfyrirtækjunum og áli reyndar líka, síðan af háu gengi sem hefur leitt til þess að innflutningur hefur ekki verið jafnmikill og ella.

Þegar menn tala um að hagvöxturinn sé byggður á froðu er nákvæmlega átt við þetta, vegna þess að heilbrigður hagvöxtur er byggður á fjárfestingu, hvort heldur sem er einkafjárfestingu eða fjárfestingu hins opinbera. Þessi fjárfesting leiðir til þess að framleiðslumöguleikarnir aukast í hagkerfinu sem leiðir til aukinna umsvifa, hærri launa, sem drífa síðan hærri ríkisútgjöld og hærri einkaneyslu og útflutning. Þannig er hinn heilbrigði hagvöxtur fundinn út. En þessi hagvöxtur sem hér um ræðir sem hefur ríkt hér á Íslandi og virðist ætla að ríkja eitthvað áfram, er fyrst og fremst byggður á froðu eins og ég hef útskýrt hér.

Hér hef ég gert efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins að umtalsefni og reynt að útskýra hvers vegna hagvöxturinn sem hefur verið hérna byggir ekki á þeim grunni sem hagvöxtur í heilbrigðu hagkerfi þarf að byggja á. Út af hverju skyldi þetta vera?

Ég hef rakið þetta með fjárfestinguna að miklu leyti, en það er einn þáttur sem ég hef ekki minnst neitt á sem hefur gríðarlega mikið að segja þegar kemur að fjárfestingum. Það snýr að tekjuhlið þessa fjárlagafrumvarps, þ.e. hvernig skattlagningu er háttað í landinu.

Skattar hafa verið hækkaðir á allt og alla, nýir skattar innleiddir, þeir gömlu hafa verið hækkaðir, en samt heyrum við þá sögu að skattbyrðin hafi lækkað á 60 þúsund manns frá því að hin norræna velferðarstjórn tók við. Hvernig í ósköpunum stendur á því? Hvernig má það vera að skattar hafi lækkað? Jú, allt er þetta falið í forsendunum. Þegar við í stjórnarandstöðunni bendum á að skattar á alla einstaklinga hafi hækkað, bendum við á eftirfarandi þrjá hluti sem er mikilvægt að hafa í huga:

1. Skattar hafa hækkað vegna þess að verðbótum á persónufrádrátt að lögbundnum verðbótum var vikið til hliðar sem leiðir til þess að persónufrádráttur hefur ekki hækkað jafnmikið og hann átti að gera samkvæmt lögum. Það er ótvíræð breyting á skattkerfinu.

2. Skattprósentur hafa verið hækkaðar.

3. Skattar eru núna þrepaskiptir.

Þannig að skattur á alla, sama hvort það er láglaunafólk eða hálaunafólk eða millitekjufólk, skattur á alla hefur verið hækkaður, þ.e. fyrir sömu laun.

Síðan er annað mál. Það er ekki ólíklegt og það er meira að segja mjög sennilegt að fleiri þúsund manns, fleiri tugir þúsunda manna, borgi núna lægri skatta þrátt fyrir þetta, en það er vegna þess að tekjur þeirra hafa minnkað. Stofninn sem þau borga skattinn af hefur lækkað. Þegar því er haldið fram að skattar um 60 þúsund manna hafi lækkað er ekki verið að segja sannleikann. Þá er verið að blekkja með tölum. Ég býð hvaða stjórnarsinna sem er að koma hérna upp og mótmæla þessari staðhæfingu minni og færa rök fyrir því af hverju hún er ekki sönn, vegna þess að það er ekki hægt. Það er ekki hægt að bera á móti því sem ég hef sagt hérna, alveg sama hversu slyngur maður er með tölur og hversu slyngur maður er að snúa tölum á hvolf og annað slíkt, þá er ekki hægt að mótmæla þessari staðreynd.

Það er gríðarlega brýnt að skattar séu lækkaðir á fólk og fyrirtæki. Þeir þurfa að lækka hjá fólki þannig að ráðstöfunartekjur þess aukist þannig að framkvæmdahugurinn taki aftur völd. Það er brýnt að skattar lækki á fyrirtækin til þess að þau hefji fjárfestingar, því að fjárfestingar leiða til þess að það þarf að ráða starfsfólk og að meira er framleitt. Báðir þessir þættir leiða til þess að á endanum breikka skattstofnarnir og þar af leiðandi hækka tekjur ríkissjóðs, sem leiðir til þess að öllum líður betur. Það er sama hvort það eru fyrirtækin, hvort það eru einstaklingarnir eða heimilin, eða hvort það er ríkissjóður. Þetta er einföld formúla, en stendur því miður í mörgum.

Það er brýnt að benda á þetta og það er brýnt að þeir sem búa til tekjuhliðina hér í þessu fjárlagafrumvarpi átti sig á þessum einfalda sannleika og einföldu rökum. En um leið er mikilvægt að brýna fyrir mönnum að vera ekki að hringla í sköttum, það er hættulegt upp á pólitísku óvissuna.

Það er óþarfi að nefna það, en samt ætla ég að gera það: Það á að standa við gerða samninga. Það á ekki að gera eins og núverandi ríkisstjórn er að gera, að vera stöðugt að svíkja gerða samninga, hvort sem þeir eru við aðila vinnumarkaðarins, við stóriðjufyrirtækin eða hvern þann sem ríkið gerir samninga við. Maður verður að standa við gerða samninga, því að annars myndast þessi pólitíska óvissa sem ég hef gert hér að umtalsefni, sem leiðir til þess að fjárfestar halda að sér höndum og fjárfesta minna. Þar af leiðandi verður lægra atvinnustig, meira atvinnuleysi og meiri útgjöld fyrir ríkissjóð. Þetta er einfalt samhengi. Hver sem sest niður og hugsar um það hlýtur að sjá að rökfræðilega og praktískt gengur þetta algjörlega upp.

Ég ætla að eyða síðustu mínútunum í útgjaldahliðina.

ASÍ hefur varað við þessu fjárlagafrumvarpi og sagt það leiða til þenslu, þ.e. til verðbólgu, vegna þess að hér sé verið að eyða um efni fram og það muni eingöngu enda með því að lánin hækka og kaupmátturinn minnkar. Í sama streng tekur Seðlabankinn þegar hann varar við því að hér verði gert svokallað kosningafrumvarp, það eigi ekki að fara út í gæluverkefni sem leiða til þess að útgjöld verði þannig að hér fari allt af stað í verðbólgu því það tapa allir á henni, sama hvort það er ríkið, heimilin eða fyrirtækin. ASÍ og Seðlabankinn sammælast um þetta. Þegar frumvarpið er skoðað er aftur á móti augljóst að í því er röng forgangsröðun. Það vantar aukin útgjöld í vissa þætti á meðan verið er að eyða í aðra óþarfa þætti. Það vantar aukin útgjöld til löggæslu. Lögregluna vantar yfir 500 milljónir til þess að halda uppi nauðsynlegu öryggi í landinu. Nú er svo komið að á mörgum svæðum, t.d. úti á landsbyggðinni, er óveruleg löggæsla. Það fyllir íbúana óöryggi og það rýrir lífsgæði þeirra sem þar búa. En líka hér á höfuðborgarsvæðinu. Hér býr löggæslan við annars konar vandamál en lögreglan á landsbyggðinni, sem koma fram í því að ekki er hægt að beita sér af jafnmiklu afli gegn hlutum sem eru óæskilegir og þjóðhagslega skemmandi, eins og til dæmis eiturlyf, skipulögð glæpastarfsemi o.s.frv. Það er nauðsynlegt að auka útgjöldin til löggæslunnar.

Hjá heilsugæslunni er búið að skera inn að beini og menn byrjaðir að tálga beinið. Það á að vera forgangsatriði að eyða peningum í löggæslu og heilsugæslu. Það er ágætt að byggja hús íslenskra fræða. Ég er gamall háskólamaður og mér þykir vænt um íslenska menningu og íslenskt mál, en er þetta akkúrat tíminn sem við þurfum að eyða 800 milljónunum sem vantar í löggæsluna? Er þetta akkúrat tíminn til þess? Eða þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri — eins mikla virðingu og ég ber fyrir þekkingarsetrum, hvað þá Kirkjubæjarklaustri. Af hverju þarf að eyða 290 milljónum í það akkúrat núna? Það er einungis fyrsti áfanginn. Af hverju mega framkvæmdir eins og þessi ekki bíða þangað til við höfum efni á því? Það þarf ekki að vera nema þangað til ný ríkisstjórn tekur við, vegna þess að þá kemur björt tíð með blóm í haga.

Fleiri hlutir. Sýning fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Það er ljóst að náttúruminjasafnið býr við afar slæman kost og hefur gert alla tíð. En af hverju þurfum við akkúrat á þessu augnabliki, þegar við stöndum frammi fyrir því að löggæslan og heilsugæslan er í molum, af hverju þurfum við að fara að byggja náttúrugripasafn? Ég vil sjá náttúrugripasafn, en ég vil ekki gera það akkúrat í dag.

Síðan eru hlutir sem í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem auðvelt er að sjá fyrir sér að hefði mátt bíða aðeins lengur með. Ég er ekki að gera lítið úr þessum fjárfestingum, t.d. er eytt 280 milljónum í eitthvað sem heitir Grænkun íslenskra fyrirtækja. Það held ég að sé mjög göfugt verkefni, en spurningin er: Eigum við að fórna löggæslunni til þess að grænka íslensk fyrirtæki, akkúrat í dag? Eða græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana, 150 milljónir? Eða grænar fjárfestingar, 50 milljónir? Og svo framvegis.

Ég er ekki að gera lítið úr þessum hlutum. Allt saman er þetta eflaust göfugt, en ég spyr: Er þetta akkúrat það sem við þurfum á að halda í dag þegar það vantar meiri peninga í löggæsluna, þegar það vantar meiri peninga í heilsugæsluna og þegar það vantar meiri peninga í velferðarkerfið? Er þetta þá það sem við þurfum að gera, akkúrat í dag?

Svona getur mannlífið verið og skoðanirnar misjafnar á því hvað sé forgangsatriði. Við sjáum á þessari fjárfestingaráætlun að það er mikilvægara að grænka hlutina en að íbúarnir búi við öryggi og góða heilsugæslu.

Að lokum langar mig til þess að taka eitt verkefni, sem í vantar 2.600 milljónir, sérstaklega til skoðunar.

Nú er það þannig að Þingeyjarsýslurnar búa yfir gríðarlega miklum ónýttum orkuauðlindum. Það hafa verið uppi viðræður og leit að fyrirtækjum, stóriðjufyrirtækjum, sem væru tilbúin til þess að setja sig þar niður, byggja upp og hefja framleiðslu. Eins og ég skil hlutina eru þrjú fyrirtæki sem koma til greina í dag og eitt þeirra er komið sérstaklega langt, það er þýskt fyrirtæki að nafni PCC. Forsendan fyrir því að hægt sé að ganga til samninga við þetta fyrirtæki er að svæðið að Bakka sé gert klárt til að geta tekið við þessari atvinnuuppbyggingu. Það að gera svæðið klárt krefst þess að endurbæta þarf höfnina á Húsavík, bæta við viðlegukanta og gera vegamannvirki frá höfninni upp að Bakka, þannig að fyrirtækið geti skipað upp því sem það þarf í framleiðsluna og skipað út því sem það framleiðir.

Fyrir nokkrum árum stóð til að Alcoa mundi byggja álver að Bakka. Væntanlegar tekjur hafnarsjóðs á Húsavík hefðu staðið undir þessum endurbótaframkvæmdum. En það var blásið af og ákveðið að fá inn fleiri fyrirtæki og dreifa framleiðslunni. Árangurinn af því er að nú eru þrjú fyrirtæki sem sýna þessu áhuga. Fyrirtækið sem ég talaði um áðan, PCC, er ekki nógu stórt til þess að bærinn geti tekið á sig nauðsynlegar fjárfestingar sem fara þarf út í til þess að gera svæðið á Bakka klárt. Þess vegna þarf ríkið að stíga hérna inn í. Nákvæmlega eins og ríkið steig inn í Hvalfirði, eins og ríkið steig inn í Helguvík og ríkið steig inn á Reyðarfirði. Ríkið þarf að fjárfesta 2,6 milljörðum.

Það hafa verið miklar yfirlýsingar um hvað ríkisstjórnin styðji vel við framkvæmdirnar þarna fyrir norðan og viljann til þess að virkja og byggja upp að Bakka, Þingeyjarsýslum og ekki síst Eyjafjarðarsvæðinu til hagsbóta. Viljinn er þó ekki meiri en svo að hans sér ekki stað í þessu fjárlagafrumvarpi. Ef þessar 2.600 milljónir verða ekki settar inn í frumvarp til fjárlaga, ef ekki fæst leyfi Alþingis til þess að nota þessa peninga til uppbyggingarinnar á Bakka, er ljóst að enn og aftur fylgja athafnir ekki orðum. Þá er ljóst að ríkið hefur enn og aftur gengið á bak orða sinna, á bak samninga, nú við Þingeyinga. Áður við ASÍ, stóriðjufyrirtækin, og flesta þá sem ríkið hefur gert samninga við, (BÁ: Hreyfinguna.) svo ekki sé nú talað um Hreyfinguna eins og hv. þm. Birgir Ármannsson bendir á.

Ég hef farið yfir efnahagslegu forsendurnar. Ég hef reynt að útskýra að hagvöxturinn sem þetta frumvarp hvílir á er afar brothættur og stórar líkur á því að hagvöxtur hér verði mun minni á næsta ári en gert er ráð fyrir í spám. Ég hef gert grein fyrir tekjuhlið frumvarpsins, að ég telji að það skattkerfi sem aflar teknanna sem eru á tekjuhliðinni sé rangt og leiði til þess að tekjur ríkissjóðs séu ekki jafnmiklar og þær gætu verið ef vel væri hugað að áhrifum skattlagningar. Ég hef talað um útgjaldahliðina og að það sé litið fram hjá nauðsynlegum útgjöldum eins og til löggæslu, heilsugæslu, fjárfestingar á Bakka, en það sé mikið af svona grænum skrefum, grænum fjárfestingum og grænkun íslenskra fyrirtækja. Að fjárfestingin liggi þar og að auki í húsi íslenskra fræða og byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri sem ég tel góð verkefni en ekki tímabær, (Forseti hringir.) eins og sýning fyrir Náttúruminjasafn Íslands.

Ég hef ekki lokið máli mínu og vil biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.