141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans. Hún var innihaldsrík að venju, enda þingmaðurinn vel að sér í fjármálum ríkisins. Hann kom inn á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þar sem lögbundin verkefni sitja á hakanum og tiltók sérstaklega lögregluna úti um allt land. Það hefur náttúrlega orðið mikill niðurskurður hjá lögreglunni úti á landi. Þar er lögreglulið orðið svo fámennt að varla er hægt að sinna lögbundnum hlutverkum. Hann fór líka yfir Stór-Reykjavíkursvæðið og hvernig verið væri að binda fjármagn í þessu græna hagkerfi sem var samþykkt hér og ýmsum leiðum beitt til að koma því inn í breytingartillögur við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins.

Nú er þessi ríkisstjórn að fara frá eftir örfáa mánuði og vonandi veit það á gott fyrir landsmenn að fylgið við ríkisstjórnina mælist sífellt minna og minna þannig að litlar líkur eru á því að þessir flokkar sitji í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Hvernig lítur þingmaðurinn á það að ríkisstjórn sem á örfáar vikur eftir ólifaðar leggi fram fjárlagafrumvarp sem bindur svo mjög hendur komandi ríkisstjórnar? Ég er aðallega að tala um þessar grænu áherslur — ég er umhverfissinni svo það sé tekið fram — og hvernig er verið að binda menn til framtíðar á árinu 2013, 2014 og gera tillögur um að eyða ríkisfé langt fram á næsta kjörtímabil. Er raunverulega tæknilega hægt að ríkisstjórn geti lagt fram fjárlög á síðasta ári kjörtímabilsins sem ganga í þessa veru?