141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn fór hér mjög snöggt úr ræðustól þannig að hann klárar líklega setninguna þegar hann kemur í seinna andsvar.

Jú, þetta er réttnefni. Fjárlagafrumvarpið er ekkert annað en kosningavíxill sem bindur hendur komandi ríkisstjórnar að mínu mati, nema það verði að einhverju leyti hægt að hrinda þessu með nýrri stefnumörkun. Þarna skila sér inn mjög miklar grænar áherslur og meira að segja Íslandsstofu er látið í té fjármagn til að kynna Ísland sem grænan fjárfestingarkost. Það vita náttúrlega allir sem fjárfesta hér og búa í þessu landi og heimurinn allur að við framleiðum mjög græna orku, við erum laus við kjarnorkuúrgang og annað, þannig að landið er mjög þekkt fyrir hreinleika, gæði og náttúruauðlindir. Þess vegna er skrýtið að fara sérstaklega af stað með kynningarátak varðandi það.

Það sem mig langar til að spyrja um í seinna andsvari er sú setning sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, þ.e. að meiri hlutinn telur að frumjöfnuður verði jákvæður ef ekki komi til frekari áföll sem rekja megi til afleiðinga bankahrunsins.

Nú hefur þessi ríkisstjórn setið í rúm fjögur ár og enn er notaður frasinn „hér varð bankahrun“, en ríkisstjórnin hefur setið við stjórnvölinn og verður að taka ábyrgð á eigin gerðum, t.d. því að fara ekki 20% leiðina sem framsóknarmenn lögðu til í upphafi kjörtímabilsins. Hvað þarf nú að setja mikinn pening inn í Íbúðalánasjóð? Og hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, setti 280 milljarða skuldabréf í erlendum gjaldeyri inn í Landsbankann sem nú er á gjalddaga og Landsbankinn á tæpast gjaldeyri til að standa í skilum með þann víxil. Samt er hér áætlað að tekjur komi á móti vegna áætlaðs arðs af Landsbankanum. Getur þingmaðurinn aðeins farið yfir þetta?