141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Ég er að öllu jöfnu þeirrar skoðunar að ríkið eigi að halda sig til hlés. Þó er undantekning á því og það eru þessi stóru verkefni eða ef ég má sletta upp á ensku, virðulegi forseti, „mega projects“ eins og þau eru kölluð. Bandaríska ríkið styður til dæmis við uppbyggingu margra fyrirtækja í Bandaríkjunum. Ég nefni til dæmis álver sem er verið að byggja núna í New York þar sem ríkið kemur að. Við sjáum þetta í Evrópu og úti um allan heim. Ef menn ætla að vera með í þessum stórverkefnum verða þeir að taka þátt í þeim leik. Ef menn taka ekki þátt í þeim leik fara verkefnin eitthvert annað.

Þegar um er að ræða slík stórverkefni geri ég undanþágu frá þeirri reglu minni að ríkið eigi að halda að sér höndum og að atvinnulífið eigi að hafa sinn gang. Því miður þarf ríkið að koma til stuðnings verkefnum af því taginu.