141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kaus af ásettu ráði að dvelja ekki of lengi við IPA-styrkina í ræðu minni vegna þess að ég taldi að hv. þingmaður hefði farið ágætlega yfir þau mál í sinni ræðu fyrr í kvöld. Ég get ekkert annað en tekið undir sjónarmið hans um að heilmikið vanti upp á að það hafi verið skýrt nægilega vel í fyrsta lagi hvers vegna það er að detta inn milli 1. og 2. umr. Það vantar alveg skýringar á því hvernig á að verja peningunum og hvort gert er ráð fyrir þeim mótframlögum Íslands sem IPA-kerfið gerir ráð fyrir o.s.frv.

Ég segi bara að ef þær upplýsingar koma ekki fram við þessa umræðu eða 3. umr. fjárlaga er nauðsynlegt að annaðhvort ég eða hv. þingmaður reyni að kalla fram umræðu um það í þinginu með öðrum hætti.

Síðan er það auðvitað yfir höfuð önnur saga hvort við eigum að taka við styrkjunum. Við höfum auðvitað átt þá umræðu í þinginu og gerðum margir athugasemdir við það síðasta vetur að verið væri að taka við styrkjunum, sérstaklega í ljósi þess í hversu miklu uppnámi Evrópusambandsumsóknin er að mörgu leyti.

Ég hef velt því upp í ræðustól hvort það sé forsvaranlegt fyrir Ísland að taka við styrkjum af þessu tagi. Bæði í ljósi þess að að minnsta kosti sumir þeirra hafa á sér mjög sterkan blæ þess að vera aðlögunarstyrkir og eru einhvern veginn komnir út fyrir þau mörk sem eðlilegt má teljast og síðan er það náttúrlega líka hvort við viljum taka við peningum á forsendum sem eru jafnótraustar og er með Evrópusambandið þegar allt bendir til þess að við förum ekki inn í það. Er þá rétt að taka við styrkjum sem eru til þess fallnir að undirbúa okkur undir aðild?