141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er tvíþætt mál. Fyrst vildi ég segja að almennt séð held ég að það séu búhyggindi fyrir ríkissjóð að greiða niður skuldir ef færi er til þess, ef það er svigrúm vegna einhverra aðstæðna, tekjuöflunar eða annarra slíkra þátta. Ef það er svigrúm til að greiða niður skuldir finnst mér að það hljóti að vera býsna góð fjárfesting að gera það frekar en bera vaxtakostnað um margra ára skeið. Ef það er raunverulega hægt að sækja mikla fjármuni, milljarða króna, inn í fyrirtæki í eigu ríkisins í formi arðgreiðslna, eða þá hugsanlega sækja einhverja peninga með eignasölu, mundi ég halda almennt talað að besta ráðstöfun þeirra fjármuna væri að lækka skuldastöðu ríkissjóðs. Ég mundi halda það. Það getur verið að mér sjáist yfir eitthvað í því sambandi en það að verja þeim til verkefna sem vissulega hafa á sér mjög stækan kosningakeim og virðast fyrst og fremst til þess fallin að höfða til einhverra tiltekinna hópa sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa áhuga á að ná til, þá finnst mér augljóst að það er betri fjárfesting að verja fjármununum séu þeir raunverulegir og raunverulega hægt að taka þá peninga t.d. út úr Landsbanka, Seðlabanka eða öðrum opinberum fyrirtækjum. Ef það er raunverulega hægt að ná peningunum mundi ég forgangsraða ráðstöfun þeirra fjármuna öðruvísi en gert er í fjárfestingaráætluninni og breytingartillögum meiri hluta.