141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég met það svo að þessir IPA-styrkir og ráðstöfun þeirra, meðhöndlun þeirra í fjárlagavinnunni og reyndar á fyrri stigum í umfjöllun í þinginu, hafi einkennst af því að menn hafa reynt að fela það sem gengur á í þessum málum. Við vitum alveg hvers vegna. Við vitum að aðalskýring þess er sundrung innan ríkisstjórnarflokkanna, eða fyrst og fremst milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu tilviki varðandi IPA-styrkina. Annar stjórnarflokkurinn ætlaði upphaflega að hafna öllum slíkum styrkjum á meðan hinn lagði þunga áherslu á þá. Síðan breyttist viðhorfið hjá alla vega meiri hlutanum innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og menn voru ósköp glaðir að fá þessa peninga inn í umhverfisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og ýmis önnur ráðuneyti sem voru á þeirra vegum. Þá breyttist viðhorfið og þá voru farnar alls konar krókaleiðir og krúsídúllur svo það væri ekki eins áberandi hvað væri á ferðinni. Það er ósköp einfalt að því leyti.

Hvað varðar aðrar spurningar hv. þingmanns í þessu sambandi er ég ekki í stöðu til að svara þeim. Ég endurtek bara það sem ég sagði áðan í andsvörum við hv. þm. Ásmund Einar Daðason, að fáum við ekki betri skýringar í þessari umræðu eða þá í 3. umr. fjárlaga er algerlega nauðsynlegt að staða þessara IPA-mála verði tekin til umræðu í þinginu undir öðrum dagskrárliðum. En ég vek athygli á því og tek eftir því í breytingartillögum meiri hlutans að þar er fjallað um suma af þessum styrkjum með þeim hætti að ljóst er að um aðlögunarstyrki (Forseti hringir.) er að ræða en ekki eitthvað sem tengist bara umsókn. Verið er að laga okkur að Evrópusambandinu, ekki bara að undirbúa umsókn.