141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki að undra að hv. þingmaður kjósi að svara á frekar abstrakt hátt. En getur hv. þingmaður ekki tekið undir með mér að þessar tillögur ungra sjálfstæðismanna séu galnar og augljóslega óraunhæfar, og bara mjög undarlegar á allan hátt?

Hv. þingmaður er hagfræðingur og hefur oft farið í gegnum hin ýmsu fyrirsjáanlegu áhrif af tillögum ríkisstjórnarinnar. En hver yrðu að mati hv. þingmanns áhrifin af því að leggja af allar þessar stofnanir, öll þessi framlög á einu bretti strax 1. janúar næstkomandi? Mætti ekki reikna með því að það mundi auka atvinnuleysi til mikilla muna á einum degi? Allt það fólk sem hefur unnið þessi fjölbreytilegustu störf, m.a. allir sem starfa í landbúnaði, yrði atvinnulaust þá og þegar. Það hlyti að fela í sér aukinn kostnað fyrir ríkið. Hefði ekki verið eðlilegt fyrir unga sjálfstæðismenn að taka það með í reikninginn að atvinnuleysisbætur færu upp úr öllu valdi, atvinnuleysi yrði líklega mælt í tugum prósenta, mundi a.m.k. aukast alveg gríðarlega frá því sem nú er, og þar af leiðandi hefði þetta ekki hvað síst til skamms tíma og líklega til mjög langs tíma gríðarlega miklar og skaðlegar afleiðingar í för með sér? Er ekki óábyrgt að leggja fram svona tillögur? Vill ekki hv. þingmaður lýsa því yfir að hann sé algerlega ósammála þessum tillögum ungra sjálfstæðismanna og það sé mikilvægt í fjárlögum eins og öðru að feta hinn gullna meðalveg?